Þetta heilnæma og litfagra pasta kemur frá Lucas Keller matreiðslumanni en hann lærði matreiðslu á Ítalíu og er mikill meistari í pastagerð. Hann kennir einnig reglulega pastagerð í Salt Eldhúsi og á og rekur veitingarhúsið The Coocoo’s Nest ásamt eiginkonu sinni Írisi Ann, ljósmyndaranum okkar klára. Við fáum því reglulega góðar uppskriftir frá honum.
Sperigilkáls spagettí
- 350 gr heilhveiti spagettí
- 1 vænt spergilkálhöfuð
- 50 gr spínat
- ólífuolía
- salt
- pipar
- chili flögur
- parmesan
- sítróna
- steinselja
- Skerið toppinn af spergilkálinu. Skerið svo stilkinn neðst af en ekki henda honum. Skerið stilkinn í litla kubba og setjið til hliðar.
- Sjóðið spergilkálið í söltu vatni í u.þ.b 3 mínútur og setjið svo í kalt vatn.
- Blandið spínatinu og spergilkálinu saman. Auðveldast er að nota töfrasprota til að blanda því saman (ein lúka á móti einum haus af spergilkáli).
- Blandið þar til úr verður mjúk mús, bætið næst við salti og pipar eftir smekk og einni matskeið af ólífuolíu og blandið svo aftur í nokkrar sekúndur.
- Hitið pönnu með ólífuolíu, bætið spergilkálskubbunum úr stilknum út á og eldið í u.þ.b 5 mínútur. Því næst fer kryddið, þ.e.a.s. chili flögurnar, salt og pipar eftir smekk á pönnuna.
- Bætið soðnu spagettíinu út á pönnuna með spergilkálinu og kreistið smá sítrónusafa út í.
- Spergilkálsmúsinni er skipt á tvo diska og spagettíinu raðað í tvo fallega turna ofan á.
- Stráið parmesan ofan á og smá sítrónuberki og njótið!