Ég er um þessar mundir stödd í smábæ í Frakklandi og veit fátt dásamlegra en að rölta á markaðinn og versla brakandi ferskt hráefni. Úrvalið er stórkostlegt og hægt að fá nánast allt lífrænt fyrir mjög sanngjarnt verð.
Grænmetið hér er svo guðdómlegt að ég kaupi alltaf of mikið af því – sem er ágætt því þá er grænmeti í öll mál! Hvort sem það er í sjeikinn, baksturinn eða matinn. Grillað grænmeti og kartöflur eru frábær undirstaða í matarmikil salöt. Ég hef þá reglu að gera aldrei sömu salatdressinguna tvisvar á meðan ég er hér úti og nota allavega eitt óþekkt hráefni á dag. Ég á það til að festast í einhverju og elda það sama aftur og aftur, sem er gott og blessað en ekkert sérstaklega spennandi eða frumlegt! Næsta skref er að prufa nýja uppskrift 7 sinnum í viku! Hvort sem það er smáréttur, drykkur, sósa, meðlæti eða þriggja rétta málsverður.
Tómatar fást hér í 20-30 tilbrigðum og því engin ástæða til annars en að smakka hvern einn og einasta. Ég ákvað því að prufa þriggja tómata brúsettur og kanna bragðmunin á grænum, gulum og rauðum tómötum. Þeir eru allir fullþroskaðir þrátt fyrir litbrigðin en eru hver af sinni tegundinni. Kalli er ekki mikill tómatmaður og því kunni hann best við grænu tómatana sem eru í raun bragðminnstir. Mér finnst þessi rauðu bestir en hinir komu skemmtilega á óvart.
- 1 baguette
- Tómatar eftir smekk
- Ferskur mosarella - 1 væn kúla
- Hvítlaukur
- Olía
- Salt
- Pipar
- Fersk basilika
- Skerið brauðið langsum og svo aftur þversum í hæfilega stórar sneiðar.
- Smyrjið brauðið með olíu eða smjöri og nuddið hvítlauksrifi í brauðsárið.
- Raðið tómötum á brauðið og bætið við söxuðum hvítlauk ef þið viljið mikið hvítlauksbragð.
- Rífið með höndunum ferskan mosarella yfir brauðið en passið að kreista vatnið úr honum áður. Með því að rífa hann frekar en skera fæst betri áferð.
- Saltið og piprið.
- Grillið á meðalhita í um 15 mínútur eða þar til osturinn er orðinn vel bráðinn.
- Kryddið með ferskri basiliku áður en þið berið fram.
- Mjög gott er að hafa klettasalat með. Ristaðar furuhnetur, rauðlaukur og dressing úr ólífuolíu og rifnum sítrónuberki gera stórlukku með þessum rétti.
Myndir: Tobba Marinósdóttir