Ég hef alltaf heillast af austurlenskri matargerð og finnst gaman að leika mér með krydd og annað sem maður notar í þessháttar matseld. Þetta salat er dásamleg blanda þar sem tveir heimar, sá íslenski og austurlenski mætast. Salatið er geggjað sem meðlæti með öllum mat eða jafnvel sem aðalréttur, maður getur varla hætt að borða það. Það er vegan og stútfullt af hollustu og bragðlaukarnir verða ekki fyrir vonbrigðum. Þegar ég skelli í þetta salat geri ég alltaf extra til að eiga í nesti í vinnuna. Ekkert mál er að hafa önnur hráefni en finnst mér sérstaklega gott að nota hvítkál eða rauðkál sem er stökkt og passar fullkomlega með dressingunni.
Geggjað salat
1/2 haus af rauðkáli, skorið í strimla
1/2 haus hvítkáli, skorið í strimla
1 bolli rifnar gulrætur
1 rauð papríka, skorin í litla bita (einnig gott að hafa gula)
1/2 bolli kóríander saxað
3 – 4 vorlaukar saxaðir smátt
1/3 bolli ristaðar möndlur í sneiðum
2-3 msk sesamfræristuð. Gott er að setja þau til hliðar eða hafa svört sesamfræ og setja yfir þegar bera á salatið fram.
Dressing sem klikkar ekki
2 – 3 msk avókadó olía, eða önnur góð olía
1 msk sojasósa
1 msk hrísgrjónaedik
1 – 2 msk hlynsíróp
1/2 – 1 tsk sesamolía
1/4 tsk þurrkað engifer, eða rífið niður um 1 – 2 cm vænan bút af fersku
1 hvítlauksgeiri saxaður smátt
Salt og pipar eftir smekk
Blandið saman dressingu og geymið í krukku til hliðar. Setjið allt grænmeti í skál og þegar á að bera fram salatið, skreytið það með ristuðum möndluflögum og sesamfræjum eftir smekk. Hægt er að gera dressinguna nokkrum dögum áður og geymist hún vel í lokuðu íláti í ísskáp. Þegar ég tek salatið með í veislu eða vinnuna, hef ég dressinguna í sér krukku og ristuðu sesamfræin og möndlurnar líka svo allt verði brakandi ferskt.