Hátíðleg fiskisúpa

Að troða sig út af sætmeti og reyktu keti getur til lengdar reynst erfitt andlega og líkamlega. Fiskisúpa er prýðismatur, holl og létt í maga og ekki síður hátíðleg en spikfeitt svín. Ekki hika við að bjóða upp á súpur um hátíðarnar eða góðan fisk. Þessi elska er hálfgerð samsuða úr mínum uppáhaldsuppskriftum og það klikkar ekki að potturinn er alltaf galtómur í veislulok. Súpan er matarmikil og létt, full af próteinríkum og hollum fiski og grænmeti. Þessi uppskrift er fyrir 6 manns.

20151213_115645-1

Hátíðleg fiskisúpa

  • 700 g blandaður ferskur fiskur (t.d. lax, langa og þorskur.)
  • ólífuolía
  • 2 laukar eða 1 stór (smátt saxað)
  • 1 rauð eða gul paprika (smátt saxað)
  • 200 g gulrætur (smátt saxaðar)
  • 4 hvítlauksrif (smátt söxuð)
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar
  • 1 dós kókosmjólk
  • 8 dl fiskisoð (eða soðið vatn og 2 fiskiteningar)
  • 4 dl mjólk
  • 2 dl hvítvín ef vill
  • 2 tsk herbes de provence
  • ¼ tsk chilikrydd
  • 1 tsk timjan
  • salt og pipar
  • fersk steinselja til að skreyta með
  1. Setjið 4 msk af ólífuolíu í pott og mýkið laukinn og hvítlaukinn í nokkrar mínútur við vægan hita. Þegar laukurinn er orðin gylltur fara paprikan og gulræturnar út í ásamt tómötunum.
  2. Látið grænmetið malla í 10 mínútur áður en fiskisoðið, kókosmjólkin og mjólkin fer út í.
  3. Kryddið súpuna og látið malla í 30 mínútur við vægan hita.
  4. Ef ekki á að borða súpuna strax er þessi grunnur geymdur. Ef gestirnir eru mættir, sársvangir og gjammandi er hvítvínið sett út í ásamt fiskinum, látið hitna í gegn og því næst er steinseljunni stráð yfir.

Gaman er að prófa að krydda súpuna minna eða meira og jafnvel með örlitlu karrý. Það er líka gott að setja smá blómkál með eða nýta það grænmeti sem til er. Ef þér finnst hún of sterk má alltaf milda hana með smá rjóma, meiri kókosmjólk eða ósöltuðu soði.

 

Ég mæli svo með Stemmara með súpunni og út í hana. Pinot grigio þrúga á góðu verði, 1750 krónur. Létt og ferskt og dásamlegt með bragðmikilli súpunni eða eitt og sér.

Verði ykkur að góðu!

20151213_115832

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *