Þennan líkjör gerum við á mínu heimili gjarnan á haustin til að eiga fyrir jólin. Það er eitthvað svo dásamlegt að bjóða vinum og vandamönnum upp á glas af heimagerðum líkjör í notalegu vetrarmyrkrinu. Líkjörinn má einnig nota í aðra kokteila, til dæmis í bláberja-mojito, í sódavatn eða jafnvel í sósuna. Þessi uppskrift er fljótgerð og svo einföld að allir geta gert hana. Mjög sniðugt er að setja þetta í litlar flöskur og gefa sem gjafir.
Bláberjalíkjör
2016-08-13 13:08:34
Dýrðlegur bláberjalíkjör sem yljar.
Innihaldsefni
- Bláber
- Sykur
- Krukka
- Kanilstöng eða anís-stjarna (má sleppa)
- Vodka
- Ath. magnið fer eftir stærð krukkunar
Leiðbeiningar
- Ef þú vilt setja kanilstöng eða anís stjórnu er best að setja hana í botninn á krukkunni fyrst.
- Settu bláber í þá krukku sem þú vilt nota, ég nota oftast krukku sem tekur um einn lítra.
- Fylltu krukkuna af bláberjum alveg upp í topp.
- Helltu sykri yfir svo krukkan fyllist alveg.
- Helltu vodka yfir allt og lokaðu krukkunni.
- Hristu krukkuna reglulega og geymdu hana á dimmum stað.
- Best er að geyma krukkuna í 2-4 vikur (mín regla: því lengur því betra).
- Þegar vínið er tilbúið seturðu grisju í sigti, hellir víninu í skál og tekur allt hratið frá. Helltu svo dásamlega líkjörnum í fallega hreina flösku.
Athugasemdir
- Líkjörinn geymist í allt að 9 mánuði.
EatRVK https://eatrvk.is/