Nú fara dagarnir að verða lengri og þá er um að gera að skella grillinu út. Þetta dásamlega kartöflusalat klikkar aldrei og er hreinlega gott með öllu. Páskagestirnir sem fengu það vildu jafnvel bara borða það eintómt. Ég sleppti því að setja beikonið á helming af salatinu fyrir vegan gestina. Ef þið viljið smá gleði og sól í hjarta þá er þetta salat snilld.
Sumarlegt kartöflusalat með lárperu, kóríander og beikoni
2016-03-28 21:35:22
Sturlað gott salat sem passar með öllu.
Innihaldsefni
- 1,5 kíló af góðum kartöflum, ég nota rauðar
- 1 star rauðlaukur skorinn í sneiðar
- 1 msk kóríander fræ
- 1/2 tsk cumin fræ
- 1 msk oregano þurrkað
- 2 rauðir chili, fræhreinsaðir og saxaðir
- 6 sneiðar beikon, steiktar og saxaðar
- 1 bolli saxað kóríander með stilkum
- 1 stór avókadó skorinn í teninga
- 1/4 bolli góð ólífuolía, set þó aðeins meira yfir í lokin
- 1 msk rauðvíns edik
- Salt og pipar eftir smekk
Leiðbeiningar
- Sjóðið kartöflurnar í saltvatni í um 20 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn.
- Hellið vatninu af og látið kartöflurnar standa meðan dressingin er gerð.
- Grillið rauðlaukssneiðarnar í álpappír með smá olíu.
- Ristið kóríander- og cuminfræin á pönnu við miðlungs hita í um eina mínútu eða þar til kryddið fer að ilma. Bætið oreganó saman við og takið pönnuna af og blandið kryddum vel saman og setjið til hliðar.
- Grillið eða steikið beikonið, kælið og saxið.
- Setjið kryddin í skál og bætið við olíunni, ediki, salti og pipar og blandið vel saman.
- Bætið kartöflum sem búið er að skera í báta í skálina ásamt láperu, beikoni, chili, kóríander og lauknum og blandið varlega saman.
- Kryddið með salti og pipar.
Athugasemdir
- Mér finnst best að gera tvöfalda uppskrift af dressingunni ef kartöflurnar eru meira en kíló.
EatRVK https://eatrvk.is/