Þegar ég var beðin um að gera uppskrift fyrir Matur á mbl.is sem var svona kósýmatur var þetta ein af þeim uppskriftum sem ég langaði að gera, sérstaklega kósý og djúsí réttur sem klikkar aldrei og allir á heimilinu elska. Það var einn laugardag þar sem ég sat uppi í sófa með hausverk eftir að hafa kíkt út á lífið í fyrsta skipti eftir að sonur minn fæddist. Ég datt inn í þáttinn hennar Oprah þar sem Tom karlinn Cruise var að lýsa ást sinni á einhverri sætri stúlku en einnig fór hann að segja frá uppáhalds „comfort food“-uppskriftinni sinni, sem var spaghetti carbonara. Þarna lék hann með tilþrifum hvernig hann eldaði þennan dásamlega rétt og ég rauk til, náði í penna og blað, skrifaði uppskriftina niður og rauk út í búð með hausverkinn í veskinu og verslaði í réttinn. Ég var ekki svikin af þessari uppskrift og ég hef gert hana margoft síðan og alltaf við góðar undirtektir. Mæli með góðu og léttu pino hvítvíni eða rauðvíni með þessum rétt. 

