Grillaður kjúklingur með sataysósu

Það eru til ótal uppskriftir af satay kjúklingi en þetta er mín og hún klikkar aldrei. Sósan er svo góð að ég gæti smurt henni á brauð og jafnvel borðað eintóma. Kjúklingalundir eru frábærar á grillið þar sem það tekur stuttan tíma að grilla þær og því er  þessi réttur snilld fyrir matarboðið enda sérstaklega bragðgóður, fljótlegur og einfaldur. Ég geri oftast meira en þarf af þessum rétit þar sem geggjað er að nota afganginn í núðlur daginn eftir fyrir fjölskylduna. Sniðugt er að gera sósuna tímanlega og jafnvel áður en farið er í útileigu, geymið hana í kæli og svo þarf bara að hita sósuna örlítið upp, grilla og njóta.

 

Grillaður kjúklingur með sataysósu

600 – 800 gr kjúklingalundir

4 msk ólífuolía

1 lífræn sítróna, rífið börkinn af og notið hann

1 – 2 hvítlauksgeiri, pressaður

salt og pipar eftir smekk

Blandið öllu saman í skál og veltið lundunum upp úr blöndunni. Setjið lok yfir og geymið í kæli í 2 tíma. Gott er að setja grillpinna í bleyti áður en kjúllinn er þræddur upp á, þá brenna þeir síður. Þræðið lundirnar á spjót og grillið á vel heitu grilli í 2-3 mínútur á hvorri hlið eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. 

Sataysósa

400 ml kókosmjólk

1 rautt chili, saxað smátt

1/2 krukka gróft hnetusmjör

5 msk sojasósa

1 1/2 msk rifin engiferrót

2 pressaðir hvítlauksgeirar

1 – 2 msk hunang 

safi úr 1 lime

Kóríander, eftir smekk til skrauts

Salthnetur saxaðar (til skrauts)

Lime bátar til að kreista yfir

Setjið allt í pott og hrærið vel í meðan, látið malla í nokkrar mínútur við vægan hita svo hún brenni ekki við.Gott er að smakka á sósunni og bæta við salt og pipar, chili eða chili kryddi ef þess þarf. Ef þið viljið hafa sósuna þynnri er gott að setja meira af kókosmjólk. Berið sósuna heita fram, ásamt kjúklingaspjótum, söxuðu kóríander, lime bátum og söxuðum salthnetum. Gott er að bera þennan rétt fram með salati og hrísgrjónum. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *