Indverskt popp

Nýjasta æðið á mínu heimili er að finna upp nýjar útgáfur af poppi og hverjum þykir ekki kósý að borða popp og horfa á góða bíómynd. Það sem er svo dásamlegt við að poppa er hve stuttan tíma það tekur og ódýrt. Þessi uppskrift er bragðmikil og snilld í matarboðið meðan verið er að bíða eftir matnum, þegar verið er að horfa á fótboltann eða í raun hvenær sem er. Til að gera uppskriftina vegan er best að nota vegan smjör í kryddblönduna. Það er bæði hægt að setja kryddin í olíuna í pottinum eða eftir á, eins og mér þykir best.

 

Indverskt popp

4 msk olía

1 bolli poppbaunir

5 msk smjör

2 tsk cumin

2 tsk malað kóríander krydd

2 tsk garam masala 

1 tsk chili duft

1 tsk salt

3 lime skorin í báta 

Hellið olíunni yfir baunirnar og poppið eins og stendur á pakkanum. Meðan það poppast setjið þið smjörið í pott og bræðið, blandið svo saman við kryddinu og blandið vel saman. Þegar poppið er tilbúið hellið þið kryddaða smjörinu yfir og veltið poppinu vel upp úr því. Berið fram með lime bátum og kreistið yfir eftir smekk. Með þessu poppi er ískaldur bjór eða kristall með lime fullkomin samsetning.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *