Laxamús handa litlum krílum

Að velja barni sínu holla og næringarríka fæðu er mikilvægt verkefni og um leið (oftast) skemmtilegt. Barnið er að átta sig á hinum ýmsu áferðum og brögðum og viðbrögðin eru oft á tíðum skrautleg. Ég hef ansi oft soðið lífrænt grænmeti fram eftir nóttu, maukað og sett í fallegar krukkur til þess eins að fá mjög dramatískt öskur með tilheyrandi andlitsgrettum. Barnið hefur jafnvel kúgast svo svakalega yfir hnossgætinu að ég dauðskammaðist mín fyrir að hafa látið mér detta í hug að bjóða henni upp á þennan hrylling!

Ég á sum sé 18 mánaða gamla dóttur sem er mikill áferðarálfur. Það er að segja, hún kúgast ansi auðveldlega og ef hún mætti ráða myndi hún borða skyr í öll mál. Nýlega – og helst til of seint – ákváðum við pabbi hennar að taka matarvenjur skyrgámsins föstum tökum en illa hefur gengið að fá hana til að borða fisk og kjöt. Fjölbreytt mataræði skiptir miklu máli og góðar matarvenjur fylgja börnum inn í framtíðina. Matarsmekkur þeirra er að þróast og því er mikilvægt að hjálpa barninu að þróa með sér smekk fyrir hollum og fjölbreyttum mat. Dóttir mín virðist eitthvað minna vera sammála okkur foreldrum sínum. Hún hefur því alla tíð fúlsað við fiski en nú var ákveðið að annað væri ekki í boði. Fyrsta skrefið var að stoppa millimálanart og tryggja að hún væri vel svöng á matmálstíma. Því þurfti að dreifa athygli hennar í um 20 mínútur á meðan verið var að klára að útbúa matinn. Það tókst. Frökenin fúlsaði auðvitað í fyrstu við disknum en eftir að henni var gert ljóst að annað var ekki í boði borðaði hún fullan disk af uppskriftinni hér að neðan. Móðurhjartað tók kipp af hamingju við að sjá alla þessa hollustu hverfa ofan í litla þrjóska kroppinn. Síðan þá hefur gengið mun betur að fá hana til að prufa nýjan mat en amman og afin voru einnig sett í prógrammið svo sömu reglur giltu alls staðar.

Góðir punktar til að fá börn til að borða:

  • Tryggið að barnið sé svangt.
  • Minnkið millimál.
  • Festið matmálstíma í sessi. Góðar tímasetningar máltíða hjálpa einnig við svefninn.
  • Ef barnið biður um annan mat er best að neita því blíðlega og bjóða því aftur að smakka það sem í boði er.
  • Að kynna nýjan mat fyrir barni getur tekið nokkur skipti. Ekki gefast upp.
  • Mælt er með að börn neyti ekki meira en 0,5 lítra af mjólkurvörum á dag. Ef börn drekka mikla mjólk dregur það úr matarlyst og ef barnið borðar mikið af mjólkurvörum er hætt við að fæðið verði einhæft og trefja lítið.

Þessi ráð eru byggð á minni persónulegri reynslu og þeim upplýsingum sem ég hef orðið mér úti um. Fleiri góða upplýsingar um næringu fyrir ungabörn má meðal annars fá á landlaeknir.is

Laxa- og blómkálsmús fyrir lítil kríli
Skrifa umsögn
Prenta
Innihaldsefni
  1. Lax og blómkálsmús (frá 9 mánaða aldri)
  2. 50 gr roð og beinlaus, lax gufusoðin eða ofnbakaður án krydda
  3. 50 gr soðið blómkál
  4. 50 gr soðnar og afhýddar kartöflur
  5. 2 msk ósaltað smjör
Leiðbeiningar
  1. Öllu er svo skellt í matvinnsluvél eða stappað.
  2. Þetta er ríflegur skammtur en hann má jafnvel stækka og frysta.
  3. Þegar venja á barnið við fisk getur verið sniðugt að setja meira af grænmeti og auka svo fiskinn. Fiskinn toppa ég stundum með smátt söxuðu spínati.
Athugasemdir
  1. Þessi réttur er mjög bragðgóður. Ég hef jafnvel sett hann í litla bolla og gert eins og kúlu á disk með salati og notað hann sem forrétt fyrir fullorðna en aðalrétt fyrir börn.
EatRVK https://eatrvk.is/

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *