Áfram heldur Minni Sóun átakið mitt þar sem ég leitast við að elda eða baka úr hráefni sem nálgast síðasta söludag. Ég er haldin miklu eplakökublæti en mér leiðist hvað epli eru gjarnan í minnihluta í eplakökuuppskriftum. Ég fór í Nettó að versla í matinn í dag og rakst á fullan poka af eplum á afslætti sem hreinlega heimtuðu að komast í kökuform. Fjögur myndarleg epli fóru í baksturinn en restina afhýddi ég og frysti og mun nota í Grænu Bombuna.
Ég sá uppskrift af Apple Cobbler fyrir skemmstu eftir meistara Nick Barnard sem ég eignaði mér, breytti og bætti. Útkoman er auðveld, fljótleg og holl. Stórfjölskyldan borðaði eplakrumbluna eða pæjuna (mér dettur ekki betra orð í hug) með bestu lyst og þeyttum rjóma. Mettir mallar og minni sóun. Fullur poki af eplum, hátt í tvö kíló, kostaði 106 krónur!
- Fjögur sæt epli
- Safi úr 1/2 sítrónu
- 1 msk af rifnum sítrónuberki
- 10 vanillu-stevíudropar
- 1/2 msk kanill
- 80 gr möndlumjöl
- 80 gr spelt- eða heilhveiti
- 65 gr mjúkt ósaltað smjör
- 1 tsk góð vanilla
- 1/4 tsk sjávarsalt
- 30 gr hrásykur eða önnur sæta
- 2 msk eplasafi
- 1 dl gott múslí. Ég nota epla- og kanilmúslí.
- Stillið ofninn á 180 gráður.
- Smyrjið mót vel með smjöri eða kókosolíu.
- Afhýðið eplin og skerið í fremur þunnar sneiðar.
- Setjið eplabitana í skál ásamt sítrónusafanum, berkinum, stevíunni og kanilnum.
- Hellið eplabitablöndunni í smurða mótið.
- Blandið hveitinu, möndlumjölinu, smjörinu, safanum, saltinu, vanillunni og múslíinu saman.
- Hrærið vel uns degið loðir saman.
- Dreifið deginu yfir eplablönduna og reynið að þekja hana alveg.
- Bakið í 40 til 50 mínútur eða þar til eplin eru orðin meyr og sæt og toppurinn tekinn að gyllast.
- Það má vel bæta rúsínum og/eða pekan- eða valhnetum við ef vill.