Trufflur með ristuðum kókos og rjómakaramellu

Ég er með æði fyrir ristuðum kókos, sem vinir mínir hér á síðunni hafa örugglega tekið eftir. Hugmyndin af þessum trufflum kom þegar ég gerði fyrir síðuna brownies sem ég elska og þá sérstaklega vegna kókostoppsins sem er á þeim, þið verðið að prufa þá uppskrift. Einnig elska börnin mín amerísku pönnukökurnar sem eru með ristuðum kókos og gerum við þær oft á sunnudögum þegar við viljum hafa það kósý, það þarf ekki mikið síróp með þeim enda góð sæta sem kemur frá ristaða kókosinum, ég hef jarðaber með þeim sem er fullkomin samsetning fyrir bragðlaukana. Mágur minn er einnig mikill kókoskarl og alltaf einstaklega gaman að gefa honum að borða, svo maður dekrar extra við hann og reynir að setja kókos í hverja máltíð þegar hann kemur í mat. Þessar  trufflur eru einstaklega einfaldar og geymast vel í kæli. Hægt er að nota hvaða karamellur sem er en mér þykja Töggur bestar. Þetta er frekar stór uppskrift og því tilvalin í stórt matarboð eða veislu. Ég fór með þessar yndislegu trufflur í vinnuna um daginn og þær kláruðust strax og margir fengu uppskriftina. Eina sem var leiðinlegt við þessar dásamlegu trufflur var hve erfitt var að ná góðri mynd því þær hurfu fljótt og ég gleymdi að geyma fallegustu molana heima, slík var spennan að leyfa vinum að smakka. 

 

Trufflur með ristuðum kókos og rjómakaramellu
Himneskar trufflur sem eru ljuffengar og geymast vel í kæli.
Skrifa umsögn
Prenta
Innihaldsefni
  1. 250 gr kókos
  2. 2 pokar Töggur - rjóma karamellur
  3. 8 msk kókosmjólk, eða önnur mjólk
  4. 1 poki 70% Siríus konsum dropar
Leiðbeiningar
  1. Þurrristið kókosinn á pönnu við vægan hita og hrærið stanslaust svo hann brenni ekki, ristið þar til hann er orðinn fallega gylltur og setjið til hliðar
  2. Bræðið karamellurnar í potti ásamt mjólkinni þar til hún er orðin mjúk og allar karamellurnar hafa blandast vel saman
  3. Hellið karamellunni saman við kókosinn og blandið vel saman, leyfið að kólna aðeins áður en kúlurnar eru mótaðar
  4. Mótið kúlur og setjið á smjörpappír og kælið
  5. Bræðið súkkulaðið og dýfið kúlunum í
  6. Kælið aftur og njótið svo
EatRVK https://eatrvk.is/

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *