Ég hreinlega elska gott Sesar-salat og ef ég sé það á matseðli er ég fljót að ákveða mig. Það sem borið er á borð er þó mjög mismunandi eftir veitingahúsum og jafnvel er bætt við eggi eða beikoni. Ég ákvað því fyrir nokkru að prófa mig áfram uns útkoman væri fullkomin. Salatið er kannski ekki hollt en það er virkilega djúsí og gott og ekta kósý-matur á mínu heimili. Þetta salat er snilld í matarboði með góðu hvítvínsglasi sem aðalréttur eða fyrir fleiri sem forréttur því matarboð þurfa ekki að vera flókin né að taka langan tíma að elda matinn! Ég skellti í þetta guðdómlega salat fyrir sérblað Matavefsins um daginn hjá Mbl.is.
Mynd Íris Ann Sigurðardóttir/Mbl.is
- 1 snittubrauð
- ólífuolía til að steikja
- salt og pipar eftir smekk
- 600-700 g kjúklingalundir eða 4 bringur
- 2-3 Romaine salat hausar fást í Hagkaup, ef þeir eru ekki til er hægt að nota iceberg eða kínakál
- Sósan
- 2 hvítlauksrif, pressuð
- 6 ansjósuflök úr dós (ekki hata anjósur þær eru möst hér)
- 2 dl rifinn parmesan-ostur
- 5 msk. gott majones
- 5 msk. sýrður rjómi
- 2 msk. gott hvítvínsedik
- Merjið ansjósuflökin á bretti þar til þau eru orðin eins og mauk, setjið í skál. Blandið saman afgangi af innihaldsefnum og hrærið vel saman og geymið í kæli.
- Skerið brauðið í teninga og steikið á pönnu með olíu, salti og pipar. Best er að hafa miðlungshita og vera dugleg að snúa brauðteningunum. Setjið til hliðar þegar þeir eru fallega gylltir og leyfið að kólna.
- Kryddið kjúklinginn með uppáhalds kryddinu ykkar, ég nota kjúklingakryddið frá Nicolas Vahé. Grillið eða steikið kjúklingabringurnar eða lundirnar þar til þær eru gegnumsteiktar, setjið til hliðar.
- Skerið salatið niður og setjið í skál, skerið kjúkling í bita og bætið saman við salatið. Hellið sósunni yfir og hrærið vel saman (toss) svo salatið sé vel þakið af sósunni. Setjið brauðteninga yfir og stráið smá extra parmesan yfir.