Þetta salat er einstaklega sumarlegt og gott, það er sannkölluð bragðbomba fyrir bragðlaukana. Það má vel bæta við baunum eða kjúklingi og nota það sem aðalrétt eða borða kalt salatið í hádeginu eftir. Það sem er best við þetta salat er að það má útbúa það löngu áður en gestirnir koma í matarboðið, einnig er það sérstaklega gott með öllu sem er grillað. Í þessu salati eru notuð svört hrísgrjón sem eru hollari fyrir okkur en önnur grjón, í þeim er meira af trefjum, prótíni, járni og andoxunarefnum en í öðrum grjónum. Einnig finnst mér áferði mun betri á svörtu hrísgrjónunum, aðeins stökkari og passa vel í þessa uppskrift.
Mynd mbl.is/Tobba
- 1 bolli svört hrísgrjón frá Mr. Organic
- 1 og ½ appelsína
- 1 bolli kóríander, saxað
- ½ bolli ristaðar furuhnetur
- 2 vorlaukar, saxaðir
- 1 chilí, fræhreinsað og saxað
- ½ bolli granateplakjarnar
- Sósa
- ¼ bolli ferskur lime-safi
- 3 msk. ólífuolía
- 1-2 msk. fiskisósa
- Hrísgrjónin eru soðin samkvæmt leiðbeiningum og sett til hliðar. Blandið öllum innihaldsefnunum í sósuna saman og látið til hliðar.
- Appelsínan er skræld og reynt að nota aðeins ávaxtakjöt og losna við sem mest af hvíta hlutanum. Blandið hrísgrjónunum og öllum innihaldsefnum saman.
- Hellið sósunni yfir og hrærið vel saman