Það er óskaplega kósý að setjast með gott te og hlusta á jólalög eða horfa á góða jólamynd. Ég hreinlega elska chai-te, það er svo milt og gott en þó bragðmikið. Góðar teblöndur geta verið dýrar en oft hægt að gera sínar eigin. Mér þótti erfitt að fá gott svart te en fann svo dásamlegt te í Tefélaginu og þá varð ekki aftur snúið, og útkoman er einstaklega góð. Oftast er engifer í chai-tei en í þetta sinn breytti ég smá og setti appelsínu í staðinn til að fá smájólagleði í bollann. Punkturinn yfir i-ið þegar þessi blanda er gerð er lyktin sem fyllir húsið, betra og jólalegra verður það ekki.
Dýrðlegt te
2017-12-09 17:37:56
Fáránlega einfalt heimagert te
Innihaldsefni
- 2 msk. heilar kardimommur
- 4 anísstjörnur
- 4-6 kanelstangir
- 1 msk. fennelfræ
- 2 tsk. heilir negulnaglar
- 2 tsk. heil svört piparkorn
- ½ bolli þurrkaður appelsínubörkur, oftast í bökunardeildum
- 1 ½ bolli gott svart te, ég notaði hunangste frá Tefélaginu sem var sérstaklega mjúkt og gott
Leiðbeiningar
- Hitið ofninn í 180 gráður.
- Skerið kardimommurnar langsum svo fræin sjáist.
- Blandið öllu saman og setjið á smjörpappír í bökunarform.
- Hafið inni í ofni í 10-15 mínútur og gott er að hrista formið þegar tíminn er hálfnaður.
- Látið kólna og sett í mortel og steytt vel saman, einnig er hægt að fá góða útrás og setja blönduna í viskustykki og berja hana með kjöthamri þegar jólastressið er að gera út af við mann.
- Blandið kryddinu saman við svarta teið og þurrkaða appelsínubörkinn. Geymið í krukku sem lokast vel.
Þegar blanda á Chai-tebolla
- 1-2 msk. af teblöndu sett í tepoka eða tesíu
- 1 bolli soðið vatn
- ¼ bolli flóuð mjólk, möndlumjólk eða önnur mjólk
- Setjið teblöndu í bolla af sjóðandi vatni og leyfið að vera í um fimm mínútur. Fjarlægið tepokann og bætið við mjólkinni, setjið hunang eða aðra sætu ef þess þarf.
EatRVK https://eatrvk.is/