Þessi réttur er mjög vinsæll um allan heim, það eru margar tegundir til af honum og við fjölskyldan erum miklir aðdáendur. Þessi uppskrift hefur verið í sífelldri þróun og nú er ég loksins tilbúin að deila henni með ykkur, enda tel ég hana vera loksins fullkomna. Þessi matur er sannkallaður „Comfort food“ eða eins og við köllum á mínu heimili „huggómat“. Rétturinn passar bæði sem hversdagsmatur eða í gott matarboð með heimagerðu guacamole, sýrðum rjóma, tortilla flögum og osti. Huggulegra verður þetta ekki. Það sem er best við þessa uppskrift að allir fimm í minni fjölskyldu elska hana og í sannleika sagt er það ekki algengt að allir séu sáttir enda margir bragðlaukar sem þarf að gleðja.
- 3 msk olía
- 1 laukur, saxaður
- 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir
- 2 rauðir chili-aldin, saxaðir (meira ef þið viljið bera með fram með rétti)
- 600 gr gott nautahakk
- 1 – 2 tsk kumminduft
- 1 – 2 tsk reykt papríka (smoked paprika)
- 1 dós saxaðir tómatar
- 2 msk tómatmauk, tómatpúrra
- 2 dl rauðvín eða Stout bjór
- 1 dl vatn
- 1 teningur nautakraftur
- 1 dós nýrnabaunir, safi sigtaður frá
- 50 – 80 gr suðusúkkulaði
- salt og pipar eftir smekk.
- 1 dl Steinselja og/eða kóríander eftir smekk, og til að bera fram
- Rifinn ostur
- Sýrður rjómi (18%)
- Nachosflögur
Best er að krydda minna fyrst og og bæta svo við eftir smekk. Við kryddum alltaf meira en minna:)
Steikið laukinn í olíu við vægan hita eða þar til hann er orðinn mjúkur, bætið saman við hvítlauk, chili og látið malla í 3-5 mínútur. Bætið hakki saman við og steikið þar til kjötið er orðið fallega brúnt. Bætið kummin og papriku kryddi saman við og steikið í 1-2 mínútu. Bætið tómötum, tómatmauki, rauðvíni/bjór, vatni og nautateningi saman við og hrærið vel saman. Látið svo malla með lokið á við vægan hita í 40 – 50 mínútur. Bætið svo í lok suðutímans baunum og súkkulaði og látið hitna í gegn eða þar til súkkulaði er bráðnað, eða um 5-10 mínútur. Saltið og piprið eftir smekk. Berið réttinn fram með chili, sýrðum rjóma rifnum osti, til dæmis mosarella og eða góðum cheddar, nachos flögum eða hrísgrjónum, og steinselju og kóríander. Með þessum rétti er gott rauðvín eða stout bjór fullkomin blanda fyrir þá sem kjósa.