Jarðaberja, rabarbara og gulrótasulta

Einn rigningardaginn í sumar var ég svo heppin að fá örlítið af rabarbara og nýjum gulrótum, en þó ekki nóg til að gera uppáhalds rabarbarasultuna mína sem ég geri hvert ár, svo ég varð að finna eitthvað annað. Ég var ekki í stuði að gera köku eða uppáhalds pæið okkar, þar sem verið er að reyna bæta aðeins mataræðið hér á bæ.Svo niðurstaðan varð að gera nýja sultu og leika sér í eldhúsinu. Fyrst var þessi sulta kölluð Tekið til í kæli – sultan þar sem ég var að nota það sem var að taka mesta plássið í honum. Úr þessari tilraun kom þessi unaðslega sulta og þegar ég var að taka myndir gleymdi ég mér aðeins og tók bita af uppstyllingunni, græðgin var svo mikil.

Uppskrift:

  • 500 gr rabarbari
  • 600 gr gulrætur
  • 500 gr jarðarber
  • 800 gr sultusykur
  • 2 dl vatn
  • Saxið rabarbarann, gulrætur eru flysjaðar og gróft rifnar og allt sett saman í pott
  • Bætið vatni og sykri saman við og látið suðuna koma upp, lækkið svo undir og látið malla í 15-20 mínútur. Mér þykir gott að fara með karföflustappara og mauka blönduna aðeins saman þegar hún er orðin mjúk.
  • Skerið jarðaberin í litla bita og bætið þeim útí sultuna og leyfið henni að malla í aðrar 15 mínútur við lágan hita.
  • Setjið í hreinar krukkur og lokið strax á.
  • Geymist á svölum stað í allt að 6-8 mánuði. Ef þið viljið að hún geymist lengur er sniðugt að vera búinn að klippa bökunarpappír í skífur sem eru jafnbreiðar og opið á krukkunni, dýfa skífunum í rotvarnarefni og leggja ofan á sultuna áður en krukkunni er lokað.
  • Njótið og fáið sól í maga 😉

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *