Pönnukökur heilsu­hjúkkunnar

Ásthildur Björns - profile

Ásthildur Björnsdóttir

Ásthildur Björnsdóttir einkaþjálfari, hjúkrunarkona og matgæðingur er í miklu uppáhaldi hjá mér en hún heldur úti síðunni Matur milli mála. Hún mun deila með okkur góðum uppskriftum næstu vikuna en janúar verður sannkölluð heilsuveisla hér á EatRVK. Ásthildur er einstkalega góð í að sameina ástríður sínar; heilsu, mat og fjölskylduna en í eldhúsi sínu í Hollandi gerast ævintýri oft á dag! 

„Stundum eru dagarnir bara þannig að yfir mann kemur pönnukökuandinn.  Það hefur einmitt verið að gerast á mínu heimili undanfarið og hafa þá þessar verið gerðar þar sem þær eru svo fljótlegar, einfaldar og vegna þess hversu fá innihaldsefni þær innihalda.“

Einfaldar pönnsur psd MMM

Hollari pönnukökur
Plantain bananar eru yfirleitt kallaðir bökunarbananar á íslensku (líta út eins og risavaxinn banani nema að hýðið er ennþá þykkra heldur en á venjulegum banana).  Ef þú finnur ekki plantain þá er hægt að redda sér með venjulegum banönum og þá er gott að hafa þá 2 meðalstóra eða 3 litla.
Skrifa umsögn
Prenta
Innihaldsefni
  1. ▪ 1 stk plantain banani eða 2 venjulegir
  2. ▪ 3 hamingjusöm egg
  3. ▪ ½ tsk matarsódi
  4. ▪ 1 msk kókosolía
  5. ▪ 1-2 tsk kanill
  6. ▪ Kókosolía til steikingar
Leiðbeiningar
  1. Allt sett í blender og blandað vel saman.
  2. Smávegis af kókosolíu hituð á pönnu rétt undir meðalhita.
  3. Hér er gott að nota t.d. stóra skeið, litla ausu til að skammta deigið á heita pönnuna þannig að pönnukökurnar séu allar af svipaðri stærð.
  4. Settu frekar færri pönnsur á pönnuna heldur en of margar svo að þær klessist síður.
  5. Þegar það byrja að koma smá “búbblur” (loftbólur) í deigið að þá er tími til að snúa pönnsunum við. Ýttu þá einnig varlega niður á pönnsuna með spaða til að þær fletijist aðeins meir út.
  6. Ágæt að kíkja annað slagið undir pönnsuna og þegar hún hefur náð gullna litnum þá er hún tilbúin.
  7. Gerðu alveg ráð fyrir að fyrstu pönnsurnar séu tilraunapönnsur á meðan þú finnur rétta hitastigið – fyrst þegar ég gerði þær voru þær frekar í dekkri kantinum þar sem ég hafði hitann of háan (var með á 7 af 10) en ég næ þeim fínum þegar ég stilli á rétt undir meðalhita (koma vel út á hitanum 4 af 10).
Athugasemdir
  1. Svo er um að gera að bera pönnsurnar fram með ferskum niðurskornum ávöxtum, mórberjum, kókosflögum, jafnvel smá hlynsýrópi og grískri jógúrtsósu.
  2. Bleika sósan á myndinni er ofureinföld: smá grískt jógúrt blandað með smávegis af frosnum hindberjum og örlitlu hlynsýrópi.
EatRVK https://eatrvk.is/

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *