Ég kalla þessar elskur hafrakodda því ólíkt flestum klöttum eða hafrakökum eru þeir dúnmjúkir. Koddarnir bera með sér hnetusmjörskeim í bland við rúsínur og gleði. Góðir með morgunkaffibollanum og veita staðgóðar trefjar, holla fitu og orku inn í daginn. Dóttir mín elskar að fá eitt stykki eftir leikskóla á meðan við púslum og dreypum á heitu kakói. Þá er notalegt að hlusta á vindinn hamast á glugganum, kveikja á kertum og njóta þess að eiga hvor aðra að. Væmið en mikilvægt! Litlu hlutirnir eru oft svo dásamlega ljúfir og mikilvægir fyrir sálarlífið.
Hafrakoddar með hnetusmjöri og rúsínum
2016-02-11 15:39:49
Dúnmjúkur og góðir! Þú getur bakað þá lengur til að fá "kex" áferð en mér finnst þeir skemmtilegir svona mjúkir. Þá henta þeir líka vel fyrir litla auma góma.
Undirbúningstími
15 min
Eldunartími
10 min
Innihaldsefni
- 100 gr hnetusmjör
- 100 gr eplamauk eða epla/peru barnamauk
- 1 banani
- 2 egg
- 30 ml kókosolía
- 30 dropar vanilu eða karamellu stevía frá Via Health
- 1 tsk gott vanilluduft eða -dropar
- ½ tsk matarsódi
- ½ tsk lyftiduft
- 2 tsk kanill
- ¼ tsk sjávarsalt
- 130 gr hafrar
- 60 gr möndlumjöl
- 1 dl rúsínur, þurrkuð bláber eða epli
- 1 dl saxaðar hnetur - val- eða pekanhnetur
Leiðbeiningar
- Stappið bananana vel og hrærið eplamaukinu við.
- Því næst er hnetusmjörið hrært út í.
- Kanill, salt, vanilla, stevía, bráðin kókosolía, matarsódi og lyftiduft fara saman við.
- Eggjum er hrært við.
- Höfrum er hrært vel saman við.
- Möndlumjölinu er hrært við ásamt hnetum og rúsínum. Hrærið uns engar hnetur eða rúsínur eru óhuldar. Haha.
- Látið blönduna standa í kæli í 5 mínútur. Hún verður aðeins meiri um sig en á samt sem áður að vera blaut og klístruð, í ætt við hafragraut.
- Setjið með teskeið litlar deigklessur á bökunarpappír og bakið í 8 mínútur á 180 gráðu hita. Kökurnar þenjast úr eins og reið vöðvatröll enda eru þær stútfullar af hollri fitu og næringu og eru fullkomnar sem morgunbiti með kaffinu eða sem millimál.
Athugasemdir
- Orkuklattar fyrir duglega kroppa! Úr uppskriftinni fást sirka 30 kökur.
EatRVK https://eatrvk.is/
Sykurlaust kakó
2016-02-11 15:47:35
Serves 2
Ljúft og sætt kakó án samviskubits.
Innihaldsefni
- 250 ml fjörmjólk
- 250 ml kókosmjólk til drykkjar
- 15-20 dropar vanillu- eða karamellustevía
- 3 msk hreint ósætt kakó
- 2 tsk möndlu eða hnetusmjör ef vill
Leiðbeiningar
- Kakóinu er pískað saman við mjólkina í potti. Hitað en ekki látið sjóða.
- Þá er stevíunni og smjörinu bætt út í. Ekki er verra að skella matskeið af þeyttum rjóma út í bollann.
EatRVK https://eatrvk.is/