Geggjaður bakaður hafragrautur

Þessi uppskrift kemur frá systur minni og hefur heldur betur slegið í gegn á mínu heimili. Heimilisfólkið myndi vilja borða þetta alla daga. Það er dásamlegt að skella í þessa uppskrift kvöldið áður og njóta svo með góðum kaffibolla og spjalli með börnum næsta dag. Gott er að borða grautinn eins og hann kemur úr ofninum, með grískri jógúrt og smá slettu af hlynsírópi eða jafnvel sem eftirrétt og hafa góðan ís með, en eitt er víst og það er að hann er fljótur að hverfa.  

2 1/4 bolli hafrar eða haframjöl

2 msk púðursykur

2 tsk kanill

1 tsk lyftiduft

1/2 tsk engifer

1/2 tsk salt

1/4 tsk múskat

2 bollar mjólk eða möndlumjólk

1/2 bolli eplamauk

1/4 bolli gott hlynsíróp

1 tsk vanilludropar

3 epli skræld og skorin í bita eða 2 epli og 1 pera

1/2 bolli saxaðar valhnetur eða aðrar góðar hnetur

Hitið ofninn í 180 gráður. Blandið saman í stóra skál höfrum, kryddum, lyftidufti og sykri. Í minni skál er blandað saman mjólk, vanilludropum, eplamauki og hlynsírópi og hrærið vel saman. Hellið blöndunni saman við hafrana og bætið svo eplum (og peru)  saman við. Setjið blönduna í eldfast mót og dreifið hnetunum yfir. Bakið grautinn í 35-40 mínútur eða þar til eplin eru mjúk. Látið hann kólna í 5-10 mínútur og svo er bara að njóta. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *