Íslensk kirsuber og gul hindber

_DSC9223 copy

Ég reyni að versla sem mest beint af bónda og finnst matur sem ég veit hvaðan kemur alltaf girnilegri. Ég og Íris Ann ljósmyndari vorum á ferð um Suðurland fyrir skemmstu. Við gerðum okkur ferð á Reykholt í Biskupstungum en það er stutt frá Reykjavík, rúm klukkustund og því tilvalið að gera sér dagsferð þangað í sumarylnum og njóta uppskeru landsins.

Íslensk kirsuber og gul hindber

Við stöllur erum að vinna að eftirréttabók og vorum á höttunum eftir fallegum berjum til að nota í skreytingarnar og helst einhver falleg íslensk blóm. Við byrjuðum á að kíkja á Gróðrarstöðina Kvist. Þar eru aðallega seldar trjáplöntur en yfir sumarið fást þar einnig ein bestu ber landsins.
Við lögðum á planinu fyrir framan söluskúrin og sáum þar glitta í konu sem stóð með vinnuhanskana hálfa upp úr rassvasanum og var í óða önn að raða boxum á söluborðið. Sjarminn lak af þessari útiteknu og drífandi konu sem við nánari athugun vissi nánast allt um garðyrkju og ekki líkaði mér minna við hana þegar ég rak augun í djúprauð og glansandi kirsuber. „Íslensk kirsuber! Ég bara vissi ekki að þau væri til,“ æpti ég barnalega og hugsaði samstundis að kampavín og kirsuber væru örugglega eitthvað sem ætti vel saman. Ekki það að ég væri með kampavín í veskinu en ég er sjúk í að prufa þetta kombó.
Hólmfríður sagði kirsuberinn nú ekki borga sig í ræktun en það væri gaman að bjóða upp á þau. Jarðaber og hindber eru þó í mun meiri ræktun hjá þeim og vinna 13 manns við að tína góðgætið hvern morgun. „Svo er von á gulum hindberjum seinna í sumar,“ sagði Hólmfríður og reyndi að lýsa fyrir mér bragðinu á þeim en ég hef ákveðið að ég verði hreinlega að keyra aftur til hennar sem fyrst til að bragða á þeim. Kirsuberin voru ein og sér svo mikið lostæti að ég myndi glöð taka mér bíltúr bara til að kaupa þau! _DSC9231_DSC9246 copy_DSC9238 copy_DSC9241 copy_DSC9243 copy

Bestu tómatar í heimi?

Við vinkonurnar versluðum ber af mikilli eftirvæntingu, kvöddum fallega garðyrkjufræðinginn og keyrðum rétt yfir hlaðið en þar eru hinir margrómuðu Friðheimar sem sérhæfa sig í ræktun tómata og hesta. Friðheimar hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér (þó ég hafi aldrei komið þangað) vegna þess að þaðan koma uppáhalds tómatarnir mínir: Piccolo tómatar. Þið hafið kannski rekist á þá í verslunum í plastdollu með loki og í lokinu er mynd af hjónunum sem eiga og reka Friðheima. Piccolo tómatar þessir eru agnarsmáir en eru með bragðmestu tómatafbrigðunum. Piccolotómatar eru kirsuberjatómatar og er plantan ákaflega vinnufrek og kröfuhörð á allar ræktunaraðstæður en ef rétt er haldið á spöðunum skilar það sér í bragðinu. Piccolotómatar eru svo sætir og bragðgóðir að jafnvel þeir sem borða ekki tómata þykja þeir góðir! Allavega hefur Kalli gert sér þá að góðu og hann er ekki tómatamaður. Mikilvægt er að geyma ekki þessa tómata í kæli frekar en aðra tómata því þá missa þeir bragð sitt og verða fyrir kæliskemmdum. Ég geymi þá yfirleitt á eldhúsbekknum sem ýtir einnig undir að þeir séu borðaðir.

_DSC9255 copy          _DSC9269 copy_DSC9275 copy _DSC9265 copy_DSC9273 copy _DSC9263 copy _DSC9259 copy _DSC9253 copy _DSC9282 copy_DSC9281 copy

Rokkstjarnan í gróðurhúsinu

Friðheimar reka ekki bara gróðurhús heldur einnig veitingastað og verslun með tómatafurðum. Við vinkonurnar vorum rétt komnar inn þegar við urðum vitni að því að ein af dætrum eigendana tók á móti stórum hóp af ferðamönnum og jós yfir þá fróðleik og persónutöfrum. Hún brosti einstaklega fallega og minnti helst á rokkstjörnu þar sem hún stóð upp á bekk í miðju gróðurhúsinu og skemmti hverjum þeim sem lagði við hlustir. Hún benti fólki á að líta upp og sjá þar fjöldan allan af býflugum sem starfa hörðum höndum við að frjógva blómin svo tómatarnir geti orðið til. Býflugurnar eru svo uppteknar að þær láta fólk alveg vera og skipta sér ekkert af matseldinni hinum megin í gróðurhúsinu.

Við Íris settumst og pöntuðum okkur mat en matseðilinn er einfaldur og skemmtilegur og fagurt umhverfið gerir allt að svo miklu meiri upplifun. Falleg blóm eru víða um gróðurhúsið og ljóst er að gott auga er fyrir smáatriðum á staðnum. Mér þótti sérstaklega skemmtilegt að kryddplöntur voru á hverju borði sem fólki var frjálst að klippa af yfir matinn sinn.

Eftir matinn smygluðum við okkur svo inn til eins stærsta blómaræktandans á landinu, Espiflöt. Þau selja ekki til einstaklinga en blómin frá þeim fást í flestum blómverslunum. Íslensk blóm eru harðgerð og einstaklega falleg og það var hrein unun að fá að skoða nýjustu tegundirnar áður en haldið var heim á leið. Stórkostlegur dagur fyrir öll skilningarvitin.

_DSC9292 copy_DSC9289 copy_DSC9316 copy_DSC9320 copy _DSC9335 copy _DSC9340 copy

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *