Tiramisu með kahlúasírópi

Á bóndadaginn fór ég í matarboð og bauðst til að koma með eftirréttinn, eitthvað var ég sein fyrir og vissi að upphaflega hugmynd mín að gera klassískt tiramisu myndi ekki ganga. Ég átti allt hráefnið í klassíska réttinn og mundi þá eftir þegar ég gerði geggjaðan bakaðan brie  þar sem dásamlegt kahlúasíróp er yfir ostinum og því væri gott að setja það yfir mascarpone ostablönduna sem er í tiramisu. Kahlúa líkjör er svo dásamlega þéttur og bragðgóður drykkur sem passar vel í margar eftirrétta uppskriftir. Ég ákvað því að blanda saman þessum tveimur réttum og til varð þessi dásamlegi og fáránlega einfaldi eftirréttur. Best af öllu var að nóg var eftir af sírópinu sem var svo notað yfir ís daginn eftir. Einnig má nota sírópið yfir pönnukökur eða kökubotna.

 

1 bolli sterkt kaffi

1 bolli kahlúa

4 msk púðursykur

klípa af salti

500 gr mascarpone ostur, gott hann sé við stofuhita

1/2 bolli rjómi

1 tsk vanillu extract, eða vanilludropar

4 msk púðursykur

klípa af salti

Lady finger kex

Setjið kaffi, kahlúa, púðursykur og örlítið salt í pott og látið suðuna koma upp, látið svo sírópið malla við vægan hita í um 10 mínútur eða það hefur þykknað örlítið. Látið í kæli meðan ostablandan er gerð
Setjið mascarpone ostinn í skál ásamt rjóma, vanilludropum, púðursykur og slati. Hrærið því vel saman þar til blandan er slétt og falleg, ef ykkur finnst blandan of þykk má setja örlítið af auka rjóma í blönduna.
Setjið 2-3 kex á disk og hellið örlitlu af sírópi yfir þau, sprautið eða smyrjið svo kremi yfir, endurtakið þetta aftur og hellið svo sírópi yfir allt í lokinn og njótið.

Hægt er að gera þetta degi áður og geyma í ísskáp, takið ostablönduna út og látið standa í smá stund áður en rétturinn er settur saman svo auðvelt sé að sprauta eða smyrja henni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *