Loksins loksins hef ég tíma til að deila með ykkur uppskriftum. Ég mun vera dugleg að setja inn eitthvað nýtt hér á síðunni og vil ég byrja á þessari dásamlegu og ávanabindandi marineringu sem passar með öllu. Við erum búin að marinera allt hér á heimilinu upp úr þessu og alltaf verið sátt; grænmeti, fisk, nautakjöt, svínakjöt, tófú og kjúkling. Allt kom vel út og var sértaklega bragðgott og djúsí. Auðvelt er að leika sér með hve sterk hún er á bragðið og mæli ég með fyrir þá sem ekki eru hrifnir af sterkum mat að sleppa eða hafa lítið af chili. Þetta er uppskrift sem á rætur sínar að rekja til Kóreu og eru margar útgáfur til, hún kallast á frummálinu Bulgogi og ég lofa að hún mun ekki svíkja. Þetta er mín blanda sem hefur þróast í eldhúsinu en endilega leikið ykkur með hráefnin sem eru dásamlega góð. Þessa marineringu nota ég líka sem sósu og geri þá extra mikið og læt sjóða smá stund í potti.
- 1/2 pera, rifin
- 2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
- 4 msk soja sósa
- 1/2 - 1 tsk chilipiparflögur eða 1/2 - 1 rauður chili, saxaður
- 2 msk engifer, rifið
- 2 msk ljós púðursykur
- 2 msk góð sesamolía
- 500 gr af uppáhald kjötinu ykkar eða annað sem þið viljið
- 4 msk góð matarolía til að steikja ef ekki á að grilla
- Salt og pipar eftir smekk
- Vorlaukur til að skreyta með
- Blandið saman peru, hvítlauk, sojasósu, chili, engifer, sykri, sesamolíu í stóran plastpoka sem hægt er að loka eða í skál.
- Skerið hráefnið sem á nota í þunnar sneiðar, svona um 1/2 - 1 cm að þykkt og setjið í pokann/skálina.
- Blandið öllu vel saman og látið marinerast á borði í 30 mínútur eða í ísskáp í allt að 8 klukkustundum.
- Eldunartími fer eftir hvaða hráefni þið veljið en ef þið eruð með nautakjöt tekur það um 3 mínútur á hvorri hlið. Passið að elda kjúkling og svínakjöt alveg í gegn. Gott er að bera fram með þessu hrísgrjón og salat, en þessi marinering passar með nánast öllu.