Um daginn fékk ég það skemmtilega verkefni að gera uppskrift fyrir matarblað sem síðan Matur gaf út sem er á mbl.is, þar sem þeminn var svartur eða grár matur. Ég vildi strax gera eitt af mínu uppáhalds pasta sem er oft á boðstólum í matarboðum hjá mér. Stundum bæti ég við grænmeti svo sem tómötum, apas eða set hörpuskel eða humar í stað risarækju en grunnurinn er alltaf sá sami. Þetta ljúffenga pasta er ákaflega gott. Það er alls ekki mikið bragð af blekinu sem litar pastað svart en þó kemur visst bragð sem passar einstaklega vel með öllum skelfisk.
Dýrðlegt svart pasta með risarækjum
2018-01-05 22:45:27
Innihaldsefni
- 400 g svart pasta (fæst m.a. í Hagkaup)
- 2 msk. ólífuolía
- 4 saxaðir hvítlauksgeirar
- 500 g risarækja
- salt og pipar eftir smekk
- 1/2 tsk. reykt paprika
- Börkur af einni sítrónu, aðeins guli hlutinn
- 1/4 bolli þurrt sérrí eða grænmetissoð fyrir þá sem vilja það frekar
- 3 msk. smjör
- Fersk steinselja eða basilíka
Leiðbeiningar
- Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum og setjið til hliðar í sigti en geymið ½ dl af pastavatninu.
- Setjið olíu og hvítlauk á pönnu og mýkið laukinn við lágan hita.
- Þurrkið rækjurnar vel og steikið á pönnu þar til þær eru fallega bleikar og setjið til hliðar.
- Hækkið hitann og bætið saman við sérrí og sítrónuberki á pönnuna og leyfið að malla í nokkrar mínútur.
- Setjið því næst reykta paprikuduftið ásamt salti og pipar á pönnuna.
- Bætið smjöri við og leyfið því að bráðna og hrærið vel saman með písk.
- Bætið pastavatninu saman við.
- Setjið pastað saman við sósuna á pönnunni og bætið rækjunum við. Setjið á fat og skreytið með steinselju eða basilíku.
EatRVK https://eatrvk.is/