Á köldum vetrardögum er gott að borða svona orkubombu og það besta er að hún er líka mjög bragðgóð. Hægt er að nota rauðrófur í alls konar uppskriftir og jafnvel kökur. Að gera hummus er mjög einfalt, hann er hollur og góður sem meðlæti, á brauð, vefjur, sem ídýfa eða á hrápitsur í stað hinnar klassísku pítsusósu. Þessi hummus er dásamlega léttur og bragðgóður. Uppskriftin er stór en auðvelt er að helminga hana fyrir lítil heimili en hummus má líka vel frysta. Rauðrófur eru allra meina bót, þær eru til dæmis stútfullar af járni, fólínsýru, magnesíum og kalíum ásamt A-, B6- og C-vítamínum. Þessi uppskrift frá mér byrtist á vefsíðu mbl.is Matur. Ég mæli með að þið fylgist vel með þeirri síðu enda svo gaman að skoða hana.
Mynd tekin af Árna Sæberg/Mbl.is
- 2 litlar eða 1 stór rauðrófa
- 4 - 6 hvítlauksgeirar
- 2 dósir kjúklingabaunir
- 1/4 bolli tahini
- 2 msk. möndlusmjör
- safi úr 1/2 sítrónu
- 1/3 bolli ólífuolía
- Salt og pipar eftir smekk
- Ferskt dill og furuhnetur til skreytingar, saxað
- Hitið ofninn í 200 gráður.
- Setjð rauðrófurnar í álpappír ásamt hvítlauknum og 1 msk. af vatni og pakkið vel inn og bakið í 45 - 60 mínútur eða þar til rauðrófan er mjúk.
- Leyfið rauðrófunni og hvítlauknum að kólna.
- Setjið kjúklingabaunir, möndlusmjör, sítrónusafa í matvinnsluvél og vinnið vel saman.
- Bætið við baunirnar rauðrófum og hvítlauk sem búið er að skræla og skera í bita og látið blandast vel saman. Saltið og piprið eftir smekk.
- Hellið ólífuolíunni rólega saman við. Ef ykkur finnst hummusinn of þykkur má setja 1-2 msk. af ísvatni eða köldum safa af kjúklingabaunum saman við, látið vélina vinna hummusinn þar til sú áferð sem þið viljið er komin.
- Setjið hummusinn í skál, skreytið og njótið.
Pingback: Avocado-kóríander hummus | EatRVK