Ég elska súkkulaði eins og hefur sést á holdarfari mínu í gegnum árin. Þetta langa ástarsamband mitt við súkkulaði hefur stundum læðst aftan að mér og því ákvað ég að mastera sykurlaust hrásúkkulaði. Það er engu að síður mjög hitaeiningaríkt en einhvern veginn gengur mér betur að fá mér einn, tvo mola og loka svo boxinu. Ég er minna að lenda í „blackout“ þar sem ég ranka við mér einhverjum klukkustundum síðar með súkkulaði út um allt andlit og tómar umbúðir.
Hrásúkkulaði þýðir að notast er við hreint hráefni sem ekki er hitað yfr 42 gráður og því haldast öll næringarefni betur í súkkulaðinu. Þetta súkkulaði er stútfullt af hollri fitu, steinefnum og andoxunarefnum. Ég nota alltaf ósætt hrákakó. Besta kakóið kemur frá Balí eða Ekvador – þú sérð upprunaland kakósins á pakkningunni.
Það má nota ýmiss konar fitu í súkkulaði, svo sem kókosolíu, kakósmjör, kókossmjör, hnetusmjör eða sesamsmjör. Einnig er gott að blanda tveimur tegundum af fitu. Ég nota kakósmjör í þessa uppskrift þar sem það þarf hærri hita til að bráðna og heldur því formi sínu betur en ef notuð er t.d. kókosolía sem bráðnar við 24 gráðu hita en kakósmjör bráðnar við 34 gráður.
Ég hvet ykkur einnig til þess að prufa kókossmjör. Það er það besta að mínu mati, sérstaklega ef það er úr heilum ristuðum kókoshnetum. Ég varð heltekin af því á Balí en því miður hef ég ekki fundið það hérlendis (þ.e.a.s. úr ristuðum heilum kókoshnetum með hýðinu).
Það er ekki flókið mál að búa til kókóssmjör – þú þarft í raun bara ósætar kókosflögur og lætur matvinnsluvél hamast í um 10 mín þar til það verður að smjöri. Best er að rista flögurnar aðeins áður. Þú gætir þurft að bæta örlítilli kókosolíu út í ef þetta er ekki að hlaupa nægilega vel í smjör.
Sílikonmót fást svo víða fyrir lítinn pening, til dæmis í Hagkaup og Tiger. Þau eru mjög þægileg. Ef ég er að nota kókosolíu eða ætla að láta súkkulaðið standa á borði lengi er fínt að setja það í lítil múffuform svo þau smiti ekki út frá sér. Fyrir þá sem kunna að tempra súkkulaði þarf ekkert að spá í þessu en temprun getur verið djöfulsins vesen. Ég kýs að kæla súkkulaðið bara í frysti þar til það storknar og geyma það svo í kæli eða frysti milli þess sem ég býð upp á það.
Appelsínuhrásúkkulaði
Þetta eru um 15 molar. Um að gera að margfalda uppskriftina ef þú ert í stuði.
- 60 gr kakósmjör
- 30 gr gróft hnetusmjör eða kókossmjör
- 20-40 gr hreint kakó
- 1 tsk maca duft ef vill (ofurfæða)
- 15 dropar vanilustevía eða önnur sæta
- 3 msk hunang eða agave (má sleppa ef þú vilt hafa súkkulaðið sykurlaust)
- ½ tsk smátt rifinn appelsínubörkur
- Skraut: Saxaðar valhnetur (appelsínubörkur, gojiber, kókosflögur og sjávarsalt)
- Setjið soðið vatn í álskál og aðra minni skál ofan í.
- Bræðið kakósmjörið og hnetusmjörið í vatnsbaði (efri skálinni) en gætið þess að ekkert vatn komist í skálina.
- Þegar það er fullbráðið er kakóinu, stevíunni og maca duftinu hrært við. Gott er að hræra súkkulaðið með gafli í um 5 mín. Þá verður það áferðarbetra.
- Loks er berkinum bætt við.
- Súkkulaðinu er hellt í mót og sett inn í frysti í 5 mínútur. Því næst er því kippt út og smátt söxuðum hnetum, goiji berjum og berki stráð yfir ásamt örlítlu sjávarsalti. Það er í góðu lagi að setja skrautið strax á súkkulaðið en þá sekkur það meira ofan í og sést ekki eins mikið.
Súkkulaðið geymist best í kæli.
Skildu eftir svar