Detox planið í heild sinni

Vegna fjölda fyrirspurna er hér komið detox planið í heild sinni. Aðlagið það endilega að ykkar eigin þörfum og passið að þetta snýst um að borða nóg – en hreint og hollt! Gangi ykkur vel! 

Velkomin(n) í 7 daga detox hjá EatRVK

Dagur 1

Til hamingju! Þú hefur tekið þá ákvörðun að hreinsa kroppinn þinn næstu 7 daga og við vonum að þær uppskriftir og fróðleikur sem sem hér má nálgast verði til þess að þú haldir þetta út! Lestu meira hér. M.a. um uppbyggingu hreinsunnarinnar.

Innkaupalistinn hér að neðan á að duga þér næstu 3 daga. Nú er bara að skunda út í búð og undirbúa gleðina sem hefst í fyrramálið!
Listinn kann að hljóma langur en það kemur á óvart hversu mikið magn af ávöxtum og grænmeti maður getur í raun borðað. Ef þú finnur ekki nákvæmlega það sem er á listanum skaltu frekar velja ferskari afurð í stað þess að kaupa t.d. hálf myglað eða illa útlítandi grænmeti. Ferskleikinn á alltaf að stjórna valinu. Sum af þessum innihaldsefnum kosta sitt en maturinn þarf að vera girnilegur og framandi til að þú gefist ekki upp. Vissulega er hægt að gera þetta með færri innihaldsefnum og sleppa t.d. ferskum bláberjum og granatepli en það er mun leiðinlegra! En að sjálfsögðu sníður þú innkaupalistan eftir þinni pyngju og smekk.
Athugið: Flest af þessu fæst í Bónus. Kostur er einnig með góð tilboð á ávöxtum og grænmeti alla fimmtudaga.

Ávextir:
Frosin bláber
Frosin hindber
Frosið mangó
Vatnsmelóna
Fersk bláber
3 vænir og vel þroskaðir bananar
1 ferskt mangó
3 sæt epli – t.d. Jonagold
1 granatepli
2 sítrónur

Grænmeti:
Ferskt engifer
Spínat, 2 stórir pakkar
Sveppabox
Hvítlaukur
3 avocado
12 stinnir tómatar
2 skarlottlaukar eða 1 rauðlaukur
Blómkálshaus
Spergikálshaus
Gulrætur
3 rauðar paprikur
Sæt kartafla
Fersk basilika
Fersk minta

Annað:
Hnetusmjör án aukaefna eða heimagert
Spirulinaduft – ef vill
Herb de provance frá Pottagöldrum
Sjávarsalt
Pipar
Döðlur
Chia fræ
Möndlur – 2 pokar
Kasjúhnetur
Epla- og engifersafi frá Cawston
Rauðrófu- og eplasafi frá Cawston
Góð ólívuolía
Graskersfræ

Fylltir tómatar og grænar bombur!

Það er gott fyrir kroppinn sem og flest annað að skipuleggja sig vel næstu daga. Best er að gera bæði hádegis- og morgundrykkinn um morguninn og setja hádegisdrykkinn í flösku eða krukku og taka með sér í vinnunna. Eins skaltu taka til millimál eða viðbótarbita til að hafa með út í daginn og forðast þannig að þú tryllist úr hungri og dettir ofan í kexpakka á fundi. Melónusalatið er t.d. snilld en það þarf að vera í kæli. Restin af því getur svo farið út í drykk morguninn eftir ef vill.

20160113_112837

Morgunn
Morgunbollinn
1 bolli engifer og sítrónuvatn (soðið vatn með 2 msk af sítrónusafa og 1 msk af rifnu engiferi)

Græna Bomban
2 dl frosið mangó
1/2 vel þroskaður banani
½ epli eða pera
2 lúkur spínat (má vera frosið)
2 cm ferskt engifer
½ tsk spírulina ef vill
2 dl vatn
2 dl epla- og engifersafi
2 döðlur

Allt sett í blandara með klaka og blandað uns kekkjalaust.

Hádegi
Rauðrófu og bláberjabomba (ekki hata rauðrófur! Þær eru vinur þinn!)
1 dl rauðrófusafi
2 dl vatn
1 lítil gulrót
½ vel þroskaður banani
1 msk sítrónusafi
2 dl vatnsmelóna
1 dl frosin hindber
1 dl frosin bláber

Allt sett í blandara með klaka og blandað uns kekkjalaust. Ef þér finnst rauðrófubragð vont er um að gera að setja meiri sítrónusafa og jafnvel engifer.
 
Kvöld
Fylltir tómatar með spínatsalati og sítrónu- og mintuolíu.

20160104_123742-1
Yfir daginn
Lágmark 2,5 lítrar af vatni.
Hnetublanda (1 dl hnetur, 2 msk graskersfræ og 5 stk döðlur eða 2 msk rúsínur eða gojiber)
Melónusalat (vatnsmelóna, minta og bláber). Eins mikið og þú vilt!

Koma svo! Þú getur þetta vel!

 

Dagur 2 – Bleiki risinn, granatepli og gleði!

 

Vúhú, vel gert að hafa þraukað daginn. Hálfnað er verk þá hafið er! Vonandi líður þér bærilega og hefur vatnsflösku við höndina en 2,5 l af vatni er fínt viðmið yfir daginn. Hér geturðu séð tillögur af bragðgóðu millimáli ef hungur gerir vart við sig. Og mundu að við erum ekki að telja hitaeiningar heldur innihaldsefni. Því máttu borða eins mikið af grænmeti og ávöxtum og þú vilt en varaðu þig þó á hnetunum því þær innihalda mikið af hitaeiningum í bland við holla fitu og góða næringu. Eins eru banani og lárpera stútfull af næringu og hollri fitu og því er fínt að neyta þeirra – en í hófi. Grænmetið er minna drama og þú getur í raun borðað eins mikið af því og þú vilt – eða nennir.

Morgunn
Morgunbollinn
1 bolli engifer og sítrónuvatn

Græna Bomban
2 dl frosið mangó
1/2 vel þroskaður banani
½ epli eða pera
2 lúkur spínat (má vera frosið)
2 cm ferskt engifer
½ tsk spírulina ef vill
2 dl vatn
2 dl epla- og engifersafi
2 döðlur
Nokkrir klakar

Allt sett í blandara og blandað uns kekkjalaust. Ef þú nærð ekki að klára drykkinn er tilvalið að setja restina í krukku og taka með. Ef þér fannst þú fljótt finna fyrir svengd í gær skaltu heilan banana.

Hádegi

Bleiki risinn
1 dl hnetur, t.d. möndlur eða kasjúhnetur
4 dl vatn
3 mjúkar döðlur
½ banani
2 dl frosin bláber
1 dl önnur frosin ber, s.s. hindber
1 tsk kókosflögur ef vill
1 msk chiafræ
Setjið fyrst vatnið og hneturnar í blandarann og látið ganga í um 2-3 mínútur (styttra með Vitamix).Því næst fer restin af listanum í, auk klaka ef vill.
 
Lítið salat
Léttsteikt blómkál
Ferskt spínat
½ lárpera með örlitlu sjávarsalti
3 msk af granatepli
1 msk olía sem dressing. Ef til vill með örlitum sítrónusafa.

Millimál
½ ferskt mangó og ½ innihald granateplis – blandað saman
1 glas rauðrófusafi (getur bætt við engifer og sítrónusafa til að „lina“ bragðið)
Gulrætur
Hreinsandi te, t.d. frá Pukka ef vill (lestu utan á það – engin aukaefni eða koffín í þennan kropp)
½ epli skorið í skífur og 1 msk hnetusmjör
Vatn með ferskri mintu og sítrónu

 
Kvöld
Salat með sætum chili kartöflum, spergilkáli, bakaðri papriku og pestó
5 lúkur spínat
½ sæt kartafla eða um 3 dl eftir eldun
Chilikrydd eða annað krydd eftir smekk 
1 stk tómatur
½ lárpera
Spergilkál – eins mikið og þú vilt
1 rauð paprika
Olía
Salt
Pipar

Skolið allt grænmetið. Afhýðið kartöfluna (gott að elda heilt stykki og eiga tilbúið fyrir næsta dag. 
Skerið kartöfluna í teninga, setjið í ofnfast mót og bakið með 1 msk af olíu, örlitlu sjávarsalti og ef til vill chillíflögum á 180 gráður í 20 mínútur eða þar til mjúkar. 
Kjarnhreinsið paprikuna og skerið í báta og setjið í ofnfast mót með skinnið upp. Paprikan er pensluð með örlítilli olíu og fer inn í ofn á sama tíma. Eftir að kartöflurnar eru farnar út er gott að hækka hitann og setja á grill í 5 mínútur svo paprikan brúnist. 
Léttsteikið spergilkálið upp úr olíu.
Raðið salatinu á disk. Takið innihald láperunnar og skerið í skífur og raðið á salatið. Helmingurinn af kartöflunum fer ofan á en restin í box inn í ísskáp fyrir morgundaginn. Spergilkálið, lárperan og niðurskorni tómaturinn fer á diskinn. Bakaða paprikan fer loks á miðjan diskinn og dressingin yfir.

Pestódressing (geymið restina í krukku inni í ísskáp)
1 dl góð olía
0,5 dl graskersfræ
0,5 dl kasjúhnetur
1 hvítlauksrif
1 tsk sítrónubörkur (sem minnst af þessu hvíta)
1 lúka fersk basilika
Allt maukað með matvinnsluvél eða blandara.

Ef ykkur finnst salat duga illa má bæta við 80 gr af lífrænum fiski eða kjöti.Það má í raun gera alla dagana en grænmtetið á að duga vel ef þú ert í mjög krefjandi æfingum daglega. Gufusjóðið eða bakið í ofni.

 

Dagur 3. Súpa handa súperkropp


Morgundagurinn er erfiðasti dagurinn að mati margra en ekki örvænta! Þú stendur þig eins og hetja. „Detoxforstjórinn“ kalla ég þig eftir þennan dag því þú ert við stjórnina í eigin líkama #likeaboss! Annað kvöld er það svo notaleg súpa en daginn eftir skellum við í mexíkóska veislu. Þú færð því nýjan innkaupalista. Engar áhyggjur ef þú hefur ekki klárað allt af síðasta lista, því við höldum áfram að nota góðgætið. Eins skaltu endurtaka þær uppskriftir sem þér finnst bestar í stað þeirra sem þér finnst síðri. Ég grenja mig ekkert í svefn yfir því. Næstu uppskriftir verða svo magnaðar! Við bætum við chiagraut, kókosdrykk, salatvefjum, hnetusósu og blómkálsgrjónum.

Morgunn
Hnetusmjörsbomba
1 vel þroskaður banani
1 msk hnetusmjör
2 dl möndlu- eða kókosmjólk til drykkjar
2 dl vatn
2 döðlur
Kanill á hnífsoddi
4 klakar

Öllu smellt í blandara og drukkið með gleði.

Hádegi
Græni risinn
2 lúkur spínat
1 dl frosið mangó
1 dl frosin bláber
1 vel þroskuð lárpera (eða banani)
Handfylli af ferskri mintu
2 dl engifer- og eplasafi
1 msk sítrónusafi
2 dl vatn
 

Kvöld
Hægelduð papriku- og tómatsúpa. Smelltu hér til að sjá uppskriftina!
Súpan er borðuð heit og toppuð með 1 msk af pestódressingunni frá því í gær, 1 tsk af graskersfræjum og vænni sneið af lárperu. Þessi er mjög góð og sniðugt að gera tvöfalda uppskrift og frysta.paprikusúpa

Millimál
½ ferskt mangó skorið í sneiðar
Granateplakjarnar ef þú átt enn eitthvað eftir af þeim.
Epli
1 msk möndlur og 4 döðlur
Gulrætur
Hreint te
Mundu að þú mátt í raun borða allt það grænmeti sem þú villt í millimál.

Rauða krukkan – þessi er mjög góður! 
1 dl rauðrófusafi
1 msk sítrónusafi
1 dl bláber
1 dl hindber
1/2 vel þroskaður banani
2 dl vatn
Allt sett í blandara og tekið með út í daginn. Fínt að henda restinni af vatnsmelónunni með ef eitthvað er eftir.

Ef þú ert að tryllast skaltu ekki hika við að tríta þig í ávaxta- og grænmetisdeildinni! Þú átt allt þar skilið!

Innkaupalistinn fyrir síðustu 4 dagana!

Ég veit að þriðji dagurinn var erfiður! Kaffihausverkurinn tekur sinn toll og þú gætir verið að upplifa allskyns fráhvörf og jafnvel depurð. En ekki örvænta þetta gengur yfir á næsta sólahring! Ef þig langar að fá þér „skyndibita“ þá er sjálfsagt að fara á staði eins og til dæmis Fresco eða Gló þar sem þú velur þér salat og grænmeti, hnetur, olíur og ávexti út á. Eins skaltu leyfa þér að kaupa fersk ber og girnilega ávexti og sódavatn til að borða í kvöld yfir sjónvarpinu.

Frosið/ferna:
Epla- og engifersafi
Ferskur appelsínusafi (ekki úr þykkni)
Frosin bláber
Frosin hindber eða jarðaber
Frosið mangó

Ferskt:
Engifer (getur keypt í skotformi frá Sollu)
Sítrónur (getur keypt í skotformi frá Sollu)
7 bananar – helst vel þroskaðir
2 perur
2 rauð paprika
1 græn paprika
1 gul paprika
1 poki grænkál
Iceberg eða annað stórt kál (í vefjur)
2 stórir spínatpokar
2 appelsínur
4 jonagold epli
Agúrka
Túrmerik biti (svipað og engifer – ekki möst en mikil galdrarót)
2 mangó
Eggaldin
Súkkíní
Sveppir
3 lárperur
Ferskt kóríander
Stórt blómkál
Sæt kartafla
4 tómatar
Laukur
Rauðlaukur
1 rautt chillí
1 box jarðaber eða bláber
Ávextir sem þér líkar og getur gripið í millimál
 
Annað:
Hreint te, t.d. detox te eða blandað í pakka frá Pukka. Sweet chai eða chili te er líka mjög gott.
Kasjúhnetur (ef þú átt ekki enn slatta)
Möndlur (ef þú átt ekki enn slatta)
Döðlur (ef þú átt ekki enn slatta)
Graskersfræ (ef þú átt ekki enn slatta)
2 pokar kókosmjöl (eða 1 lítill poki og kókosmjólk án sykurs í fernu til drykkjar – en heimagerð er alltaf best! Sjá uppskriftina hér – tekur stutta stund!)

 

Dagur 4 – Mexíkóskar vefjur og kókosgrautur

 

Ég vona að dagur 3 hafi ekki verið eins erfiður hjá ykkur og hjá mér. Kaffiþorstinn gerði óþægilega mikið vart við sig í formi höfuðverks og það reyndist taka allan minn viljastyrk að smyrja brauðsneið handa dóttur minni og rétta henni hana í stað þess að borða hana sjálf. Maður fer að efast um af hverju í fjandanum maður er að standa í þessu og hvort það er virkilega svona óhollt að borða það sem mann langar í. Svarið er já og til hamingju ef þú stóðst þær ótalmörgu freistingar sem á vegi þínum urðu! Ekki örvænta: Vinir og vinnufélagar munu fyrirgefa þér geðvonskuna. Vonandi.

Morgunn
Morgunbollinn
1 bolli engifer og sítrónuvatn (soðið vatn með 2 msk af sítrónusafa og 1 msk af rifnu engiferi)

Græna Bomban
2 dl frosið mangó
1/2 vel þroskaður banani
½ epli eða pera
2 lúkur spínat (má vera frosið)
2 cm ferskt engifer
½ tsk spirulina ef vill
2 dl vatn
2 dl epla- og engifersafi
2 döðlur

Allt sett í blandara með klökum og blandað uns kekkjalaust.

Hádegi
Kókos og berjaþeytingur 
2 dl kókosmjólk
2 dl vatn 
1 msk chia fræ
2 döðlur
1 vel þroskaður banani
1 dl frosin hindber
1 dl frosin bláber
Klakar

Allt sett í blandara og blandað uns kekkjalaust.

Kvöld
Mexíkóskar vefjur með fersku salsa og guacuamole
Athugið að nota endilega það grænmeti sem eftir er frá síðasta innkaupalista áður en þið ráðist á nýja fjallið.

Innihald (fyrir 1 svangann)
Kálblöð
1/3 sæt kartafla
5 sveppir
1/2 gul paprika
1/3 laukur
1/2 græn paprika
2 sætir tómatar
1/4 rauðlaukur
Kóríander
1 msk sítrónusafi
Lárpera, vel þroskuð
Hvítlauksrif
2 gulrætur 
3 msk kókosmjólk
Salt
Pipar
Ferskt chili eða chiliflögur ef vill 

Skolið kálshausinn og brjótið hvert blað af svo úr verði nokkur heil blöð sem nota má í vefjur.
Afhýðið sætu kartöfluna og skerið í litla teninga.
Skerið gulu paprikuna, gulræturnar og laukinn í strimla.
Steikið grænmetið á pönnu upp úr örlitlu salti og olíu.
Skerið sveppina í sneiðar og bætið við.
Þið getið einnig valið að steikja þetta í sitthvoru lagi ef heimilisfólkið vill velja sjálft á sína vefju. Setjið grænmetið til hliðar á disk. 

IMG_20160120_205134 (2)

Guacuamole
Stappið lárperuna og merjið 1 hvítlauksrif út í.
Saltið og piprið og bætið 1/2 tsk af lime- eða sítrónusafa við.
Því næst er 1-2 msk af kókosmjólk hellt út í ef vill og hrært. Jafnvel 1 msk af appelsínusafa.

Ferskt salsa
Saxið tómatana smátt ásamt rauðlauknum og grænu paprikunni. Blandið vel saman.
Saxið 1 lúku af kóríander og blandið vel saman við.
Kryddið með fersku eða þurrkuðu chiliflögum ef vill.
Ef þið eruð í flippstuði getið þið jafnvel sett örlítið mangó með í salsað.

Yfir daginn
Lágmark 2,5 lítrar af vatni
Te, t.d. Sweet thai
Bananaþeytingur (1/2 frosinn banani, 1 msk hnetusmjör, 2 dl kókosmjólk, 2 döðlur, 1/2 tsk kanil, klaki)
Appelsína

Chiagrautur með berjum 
2 dl möndlu- eða kókosmjólk
1 söxuð daðla
2-3 msk chiafræ
3 msk frosin eða fersk ber

Allt sett í krukku og hrist. Fræin munu þenjast út og verða grautkennd. Geymist í kæli í lágmark 15 mínútur áður en borðað.

Dagur 5 -Hnetusmjörsís og sætkartöflusnakk!

Jæja. Þá ætti mesti skjálftinn, hausverkurinn og almenna vanlíðanin að vera að víkja fyrir léttari kroppi, skarpari hugsun og aukinni orku. Ef ekki þá ertu of eitruð/eitraður til að hægt sé að bjarga þér. Djók! Þetta kemur allt. Það tekur því ekki að hætta núna, þetta er nánast komið hjá þér! Ég mæli með gufu, jóga og léttum göngum og æfingum til að hressa sál og kæta kropp. Vonandi ertu annars í góðum fíling! Hér að neðan eru svo fullkomin trít, „nicecream“ og snakk.

Morgunn
Morgunbollinn
1 bolli engifer og sítrónuvatn (soðið vatn með 2 msk af sítrónusafa og 1 msk af rifnu engiferi)

 

Græna Bomban m. gúrku
2 dl frosið mangó
1/2 vel þroskaður banani
½ epli eða pera
2 lúkur spínat (má vera frosið)
1 cm ferskt engifer
½ tsk spirulina ef vill
1/2 agúrka
2 dl vatn
2 dl epla- og engifersafi
2 döðlur

Allt sett í blandara með klaka og blandað uns kekkjalaust.

IMAG5575

Hádegi
Rauðrófu- og túrmerikhristingur og vefja með hnetusósu
1 dl rauðrófusafi
1/2 cm túrmerikbiti 
2 dl vatn
1 dl appelsínusafi
1 lítil gulrót
1 vel þroskaður banani
1 msk sítrónusafi
2 dl mangó 

Allt sett í blandara og blandað uns kekkjalaust. Ef þér finnst rauðrófubragð vont er um að gera að setja meiri sítrónusafa og jafnvel engifer.Með þessu skaltu fá þér salatvefju með fersku mangó, papriku og gúrku í strimlum. Sósan er dúndur: Hún er rífleg svo þú getur notað hana með kvöldsalatinu. Ommnomm!

Hnetusósa
1 dl olía
2 msk hnetusmjör
2 msk smátt saxað kóríander 

 

Kvöld
Steikt grænkál, bleik blómkálsgrjón og bökuð eggaldinloka
1 Eggaldin
1/2 grænkálsbúnt
4 sveppir
3 dl smátt saxað blómkál 
1 msk rauðrófusafi
1 msk saxaðar hnetur
1 msk kókosmjöl
1 sæt kartafla 
Olía
Salt
Pipar

Skerðu eggaldinið langsum í vænar sneiðar. Penslaðu þær með olíu, veltu upp úr kókos og kryddi að eigin vali  og bakaðu í ofni á grilli í um 20-25 mínútur á 180°C eða þar til það fer að „gyllast“. Eggaldinið notarðu sem „brauðsneiðar“.
Léttsteiktu svo sveppina og grænkálið með olíu og smá sjávarsalti, pipar og Herb de Provence. Settu blönduna svo ofan á eggaldinsneiðina. Þú getur bætt við meira grænmeti að vild, t.d. bakaðri papriku, tómati og fersku spínati. Það má líka gera eggaldin snittur með sömu aðferð.

eggaldin

Smátt saxaða blómkálið er steikt á pönnu með 1 msk af rauðrófusafa og smá olíu og salti. Næst fer 1 msk af smátt söxuðum hnetum með. Því næst fer blandan með eggaldinlokunni á diskinn og dressingin frá því í hádeginu er til hliðar.

Þetta sætkartöflusnakk er geggjað með!

Eftirréttur! (fyrir 2)
Hnetusmjörsís með ferskum berjum
2 stórir frosnir vel þroskaðir bananar
1-2 dl kókosmjólk eða möndlumjólk
1 msk hnetusmjör
Kanill á hnífsoddi
3 döðlur

Bananarnir eru hlutaðir í nokkra stóra bita og settir í blandara ásamt öllum innihaldsefnunum. Ef blandarinn þinn er ekki nægilega öflugur gætir þú þurft að setja meiri vökva og frysta ísinn aðeins eftir gerðina. Ef blandarinn er nægilega öflugur verður þetta strax eins og þykkur ís. Þú gætir þó þurft að setja banana smám saman út í ef vélin er að erfiða. Skreytið með ferskum berjum og njótið. Ég get ekki mælt nægilega mikið með Vitamix. Hann kostar slatta en er hverrar krónu virði og gerir þér kleift að borða hnausþykkan ís á hverjum degi! Hann er á sérstöku detox tilboði fyrir lesendur EatRVK út janúar.
 

Yfir daginn
Lágmark 2,5 lítrar af vatni
Hnetublanda (og 5 stk döðlur eða 2 msk rúsínur eða gojiber)
Ferskir ávextir
Grænmeti að vild
Te

Chiagrautur
1,5 dl kókosmjólk
3 msk chiafræ
1 söxuð daðla
1 msk kókosmjöl
Fersk eða frosin ber

Allt sett í krukku og hrist. Geymt í kæli í lágmark 15 mín,

Þú átt ekki að þurfa að upplifa hungur! Vertu dugleg(ur) að borða og ekki hika við að henda í annan hristing ef hungrið gerir vart við sig! Reyndu samt að minnka magamál þitt ef þú ert að hugsa um að létta þig og drekktu vatnsglas fyrir hverja máltíð.

 

Dagur 6 – Hreinsandi túrmeriksúpa og chiahamingja!

Nú er svo stutt eftir að það tekur því ekki að hætta! Nú ættirðu að vera farin(n) að upplifa allskonar aukna gleði í kroppnum; minni þroti, orkan er að aukast, kaffihausverkurinn farinn og kroppurinn léttari á sér. Vonandi líður þér stórkostlega, kroppurinn blómstrar og sálin með. Ef þú prufaðir bananaísinn í gær og hann var ekki nægilega sætur getur verið að bananarnir hafi ekki verið nægilega vel þroskaðir. Því þroskaðri, þeim mun sætari og betri. Svo er ágætt að kaupa eitt glas af vanillustevíu og prufa sig áfram með hana í stað sykurs í framtíðinni. Til dæmis í chiagrautinn góða. P.S. Fannst ykkur sætkartöflusnakkið í gær ekki klikkað gott?

Morgunn
Morgunbollinn
1 bolli engifer og sítrónuvatn (soðið vatn með 2 msk af sítrónusafa og 1 msk af rifnu engiferi)

Græna Bomban (vonandi ertu ekki komin með ógeð á þessum! Hann er bara svo hrikalega hollur!)
2 dl frosið mangó
½ vel þroskaður banani
½ epli eða pera
2 lúkur spínat (má vera frosið)
2 cm ferskt engifer
½ tsk spírulina ef vill
2 dl vatn
2 dl epla- og engifersafi
2 döðlur

Allt sett í blandara með klaka og blandað uns kekkjalaust.

Hádegi
Bleiki draumurinn
2 dl vatn
1 dl rauðrófusafi
½ pera 
1 msk kókosmjöl
1 msk kókosolía ef vill 
1 dl kókosmjólk 
1 vel þroskaður banani
2 dl frosin ber

Allt sett í blandara með klaka og blandað uns kekkjalaust.

túrmeriksúpa

Kvöld
Hreinsandi túrmeriksúpa fyrir 2
1 lítil sæt kartafla 
4 vænar gulrætur
3 dl blómkál
1 cm engifer
1 hvítlauksrif
½ laukur
2 tómatar 
½ paprika (rauð eða gul) 
Lítil biti túrmerik (1/2 matskeið sirka)
3 dl kókosmjólk
3 dl vatn 
2 msk appelsínusafi 
Vatn
Olía
Salt
Pipar
Annað krydd eftir smekk, t.d. smá karrí.

Ofnbakið paprikuna, laukinn, hvítlaukinn eða steikið á pönnu uns gyllt.
Setjið það til hliðar og sjóðið sætu kartöfluna og gulræturnar uns lungnamjúkar.
Þá er vatninu hellt af og laukurinn, hvítlaukurinn og paprikan fer út í pottinn.
Maukið túrmerikið og engiferið í matvinnsluvél og setjið út í pottinn.
Þá fer restin af innihaldinu (allt nema blómkálið) út í pottinn og maukað með töfrasprota uns kekkjalaust.
Látið malla og kryddið til.
Skerið blómkálið smátt og setjið út í og látið malla í aðrar 5 mínútur.
Þá er hamingjan tilbúin.

Berið fram með fersku kóríander, graskersfræjum og sætkartöflusnakki ef það kláraðist ekki í gær! Obbobb, þú gætir þurft að kaupa fleiri sætar kartöflur!

Yfir daginn
Lágmark 2,5 lítrar af vatni
Hnetublanda
Appelsínu og mangósalat (1/2 mangó skorið í teninga ásamt heilli appelsínu)
Grænmeti og ávextir að vild

Chiagrautur með berjum 
1,5 dl kókosmjólk
3-4 msk chiafræ
1 daðla, smátt söxuð
Ávextir, kókosflögur og hnetur til að toppa snilldina

Allt sett í krukku og hrist (nema það sem á að toppa grautinn með).
Látið þykkna í að lágmarki 15 mín áður en borðað.

Nú er bara að njóta þess að hafa staðið þig svona vel. Skelltu þér í gufu í kuldanum í kvöld, gefðu þér góðan tíma til að slaka á og hugsa um árangurinn og breytingarnar sem þú finnur. Þú þarft að læra vel inn á líkamann til að skilja hann. Fylgstu svo vel með næstu daga þegar þú ferð smám saman að bæta inn í mataræðið og reyndu að finna út hvað hentar þér og hvað ekki. Og takk fyrir að gefast ekki upp! Guð veit að mig langaði það. En þetta er snilldin við að gera eitthvað í hóp. 

 

Dagur 7 – Nú klárum við þetta!

Ég á ekki til orð yfir hörkuna að halda þetta út. Það verður að segjast að detox er mun erfiðara en margan grunar! Mig langaði marg oft að stytta þetta niður í 4 eða 5 daga. En það borgar sig að gera þetta í hópi. Ég gat ekki hugsað mér að senda á 980 manns: „Hæ! Ég gafst upp!“ Því hélt ég áfram og vonandi þú líka. Uppskriftirnar í dag eru byggðar á að tæma ísskápinn af því sem þú keyptir inn. Enginn sóun, minni mengun og allir glaðir! Það getur líka verið sniðugt að taka síðasta daginn bara á þeytingum og chia-graut ef þú tresytir þér til! 

Hvað svo?
Ég hvet þig til að halda áfram inni morgundrykk (helst grænum) og tryggja þannig gott start á deginum. Hann er stútfullur af næringu, vítamínum og trefjum. Eins er mjög gott að henda sér ekki beint í stóra kók og hamborgara heldur smám saman bæta inn innihaldsefnum og byrja til dæmis á grófu korni og mögru kjöti. Það er stórkostlegt ef þú ert til í að stefna á að halda þig frá sykri það sem eftir lifir janúar. Stevía er mikið undraefni og er náttúruleg sæta unnin úr jurtum. Gangi þér sem allra best og haltu áfram að fylgjast með okkur á EatRVK.com en við leggjum okkur fram um að vera með gott úrval af hollum uppskriftum.

Morgunn
Morgunbollinn
1 bolli engifer og sítrónuvatn (soðið vatn með 2 msk af sítrónusafa og 1 msk af rifnu engiferi)

Græna Bomban (notaðu endilega það sem þú átt í ísskápnum)
2 dl frosið mangó
½ vel þroskaður banani
½ epli eða pera
2 lúkur spínat (má vera frosið)
1 cm ferskt engifer
½ tsk spírulina ef vill
2 dl vatn
2 dl epla- og engifersafi
2 döðlur
Allt sett í blandara með klaka og blandað uns kekkjalaust.

Hádegi
Banana- og hnetusmjörsþeytingur
2 dl kókosmjólk
2 dl vatn
½ vel þroskaður banani
1 msk hnetusmjör
1/2 vel þroskað avacado
2 döðlur
Kanill á hnífsoddi

Allt sett í blandara með klaka og blandað uns kekkjalaust.

 
Kvöld
Tandooripottréttur
4 bollar saxað grænmeti (t.d. paprika, súkkíní, sveppir, spergilkál, gulrætur og sætar kartöflur)
1-2 dl kókosmjólk
2 smátt saxaðar döðlur
2 msk hnetur að eigin vali
½ tsk tandoorikrydd (helst frá Pottagöldrum)
1 msk kókos
Salt
Pipar
Olía
Smátt saxað engifer, hvítlaukur og túrmerik til að bragðbæta. Það getur verið sniðugt að gera „paste“ úr kryddinu með því að merja það í mortel eða með matvinnsluvél. Slík karrímauk eru mikið notuð á Balí þar sem ég hef dvalið töluvert síðast liðið ár. Þeir bæta jafnvel chillí og fleiri ferskum kryddum út í. 

Léttsteikið grænmetið á pönnu upp úr olíu. Setjið fyrst það grænmeti sem þarf mestan eldunartíma.
Þegar grænmetið er farið að mýkjast fer kókosmjólkin, hneturnar, kókosmjölið og kryddið á pönnuna.
Látið malla við vægan hita í 15 mínútur. Grænmetið á þá að verða orðið mjúkt og umlukið sósu.
Gott er að toppa réttinn með smátt söxuðu spínati eða fersku kryddi.

Yfir daginn
Lágmark 2,5 lítrar af vatni.
Endilega borðið grænmetið og ávextina sem til eru. 
Einnig er tilvalið að henda í auka hristing eða chia-graut.

Takk fyrir samfylgdina – og hörkuna og njóttu afrakstursins! 

Tobba og EatRVK 

 

27 Comments on “Detox planið í heild sinni

  1. Góða kvöldið.. Mig langar aðeins að forvitnast og fá að vita um árangur hjá einhverjum þeim sem fóru í Detox? Léttust þeir? Eða hvernig leið þeim ? Mig langar að prufa og stefni á að byrja 2 mars en þar sem ég bý út á landi þá er ekki eins mikið úrval af því til hér sem er á innkaupalistanum, þarf því að byrgja mig upp þegar ég fer til RVK 29 feb.
    Bestu kveðjur .

  2. Mér finnst þetta mjög spennandi. Ég er reyndar að skipta um húsnæði, selja og kaupa sem er mjög stressandi og ætla að verðlauna mig að því loknu með þessu. Ég er ekki mikil hnetuæta, get ég notað möndlur að einhverju leiti í staðinn? Eins er ég með vanvirkan skjaldkirtin og er sagt að þá eigi ég ekki að borða spínat, get ég skipt því út fyrir grænkál’

    • Já endilega skelltu þér á þetta! Möndlur mega gjarnan koma í staðinn eða fræ ef það hentar betur eins og sesam eða graskersfræ. Grænkálið er frábært notaðu það endilega. Ég léttsteiki það áður en ég borða það (nema að ég setji það í drykki) svo það sé auðmeltanlegra og verði ekki birturt. Passaðu að aðskilja stilkana áður en þú setur grænkál í drykki því það getur verið dálítið rammt.

  3. Góða kvöldið .
    Ég var að rekast á þetta Detox plan hérna og mjög spennt að heyra hversu vel þetta er að virka , er fólk að léttast eða er þetta einungis hugsað sem hreinsun á líkama ?
    Allavega hljóma dags matseðlarir vel .
    Fyrirfram þakkir .

    • Sæl já allir sem ég hef heyrt frá hafa lést og minnkað magamál sem aðstoðar mikið.

  4. Pingback: Nicecream hreinsun! | EatRVK

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *