Ég hef verið að prófa mig áfram með vegan uppskriftir. Síðastliðinn miðvikudag var ég með snapchat-ið fyrir Veganúar og því var kominn tími til að girða sig í brók og græja eitthvað hrikalega djúsí – án allra dýraafurða. Niðustaðan var lasagna. En lasagna án alvöru osts? Ég var mjög skeptísk en verð að segja að þetta var þrusugott engu að síður og sambýlismaðurinn sem er mikill ostaunnandi borðaði tvöfaldan skammt!
Ekki var verra að ég fann vegan rauðvín (Coocoo’s Nest selur það) sem smakkaðist fullkomlega með lasagnanu. Ég verð að hrósa innflytjendunum (hverjir sem þeir eru) fyrir framtakið en þetta rauðvín er eina vegan vínið á Íslandi og er ekki flutt inn af stóru umboðunum. „Bíddu bíddu, er ekki allt léttvín vegan – bara ber og eitthvað krúttlegt?“ gætuð þið verið að hugsa. En ónei, dýraafurðum er víst troðið í allan fjandann með einum eða öðrum hætti og þar með í framleiðslu flestra vína, hvort sem það er á frumstigum við vinnslu vínsins, við gerjun eða síun. En ekki örvænta því þetta vegan vín fæst bæði hvítt og rautt og kostar 2.098 kr. í Vínbúðunum, sem er bara ansi sanngjarnt.
- 1 vegan rjómaostur. Fæst t.d. í Nettó og Hagkaup.
- Vegan lasagnia plötur
- 1 laukur
- 1 rauð paprika
- 4 vel þroskaðir tómatar
- 6 vænar gulrætur
- 6 sveppir
- 1/2 kúrbítur
- Ferskur basil
- 1 dl kasjúhnetur
- Spínat
- 150 gr blómkál
- Hvítlaukur
- 1 dós niðursoðnir tómatar
- 1/2 dl rauðvín ef vill
- 2 msk tómatpúrra
- Lífrænn grænmetiskraftur
- Salt
- Pipar
- Chiliflögur
- Ítalskt pizzakrydd
- Saxið 1/2 lauk og 1/2 hvítlauk og brúnið í olíu í potti.
- Því næst fer blómkálið smátt saxað út í ásamt 2 lúkum af smátt söxuðu spínati.
- Saxið sveppina og bætið út í pottinn.
- Bætið öllum rjómaostinum við.
- Bætið 1 lúku af smátt söxuðum basil og salti og pipar eftir smekk.
- Þá er hvíta sósan tilbúin og hún sett til hliðar.
- Saxið 1/2 lauk og brúnið í potti með olíu ásamt smátt söxuðum gulrótunum.
- Á meðan það brúnast fara niðursoðnu og fersku tómatarnir í blandara ásamt kjarnhreinsaðri paprikunni. 1/4 tsk af chiliflögum, 1 tsk af grænmetiskrafti og 1/2 dl af rauðvíni fara einnig með í partýið og öllu er blandað vel saman uns kekkjalaust.
- Hellið blöndunni út í pottinn.
- Kúrbíturinn er saxaður gróft og honum bætt við.
- Kryddið til með salti, pipar og ítalska kryddinu.
- Raðið lasagnaplötunum og sósunum til skiptis. Endið á að setja sósu á toppinn.
- Saxið kasjúhneturnar smátt og dreifið yfir sósutoppinn.
- Bakið í ofni samkvæmt lasagna-leiðbeiningunum.
- Látið standa í 10 mínútur áður en þið borðið þessa dásemd ásamt góðu salati.
- Lasagnað er jafnvel betra daginn eftir.