Fiskfélagið – kurteis hamborgari og tjúllaður túnfiskur

Við stelpurnar á EatRVK gerðum okkar glaðan dag fyrir skemmstu og skelltum okkur á Fiskfélagið sem hefur lengi verið einn af mínum uppáhalds hádegisstöðum en humarsalatið þar (ég sleppi því að láta djúpsteikja humarinn) er óviðjafnanlegt. Jafnvel fullkomið! Böns af parmesan, stökku salati og dísætum smátómötum. En það er önnur saga. Þessi saga gerist um kvöld.

Fiskfélagið lúrir á neðstu hæð gamla Simsenhússins sem flutt var í Grófina fyrir nokkrum árum. Við komu á Fiskfélagið að kvöldi til um vetur er iðulega búið að kveikja á kertum í luktum fyrir utan, en á sumrin eru borð og stólar fyrir utan með bleikum sólhlífum og marglitum teppum sem skapa kærkomna litadýrð fyrir utan steingrátt húsið.
Við útidyr staðarins er ofurlítil tjörn sem um tíma tókst að halda nokkrum fiskum á lífi í en hefur í seinni tíð orðið sumardvalarstaður farfuglspars sem kemur árlega og nýtur góðs af heimabökuðu brauði kokksins.

_DSC7522

Hönnun staðarins er skemmtileg. Nýtt og gamalt mætist á áreynslulítinn máta þannig að hlaðnir veggir og uppruni hússins fá að njóta sín. Salernin eru skemmtilega flippuð og veggfóðruð með nærmyndum af dýrum. Veggurinn fyrir framan salernið er svo fóðraður með hreindýrafeldi svo það er dúnmjúk lending að halla sér upp að veggnum – hver svo sem ástæða hallans er.

Við komuna á staðinn voru við vinkonurnar eitthvað hálf teygðar og togaðar. Börnin höfðu látið illa að stjórn, ein okkar er í miðjum flutningum og daglegt amstur hafði tekið sérstaklega á þennan dag. Við slógum því ekki hendinni á móti því þegar þjónninn rétti okkur kokteilseðilinn. Þónokkrir óhefðbundnir kokteilar voru á seðlinum, til dæmis var búið að taka hin klassíska Espresso martini og hrista vel upp í honum með því að setja meðal annars tekíla í hann. Ég er ekki mikill tekíla unnandi en Íris ljósmyndarinn okkar, sem var einmitt að klára að flytja þennan dag, dæsti af ánægju eftir hvern sopa. #mammaþarfaðsúpa

_DSC7526

Það kom mér á óvart að staðurinn var stútfullur af fólki á miðvikudagskvöldi. Starfsfólkið réð vel við fjöldann og þjónustan var mjög góð, sem því miður er undantekning að mínu mati á veitingastöðum í miðborg Reykjarvíkur.

Fyrir valinu varð sérstakur sex rétta seðill Fiskfélagsins sem kallast Umhverfis Fiskfélagið þar sem kokkar staðarins velja uppáhalds réttina sína úr matreiðslubók veitingahússins.

Lystauki er smekklegheit sem ég er afskaplega hrifin af en að þessu sinni var það lax með mangómeðlæti. Mjög ferskt og flott. Lystauki setur tóninn fyrir máltíðina og færir veitingahús upp um klassa að mínu mati. Eins finnst mér „palate cleanser“ eða bragðlaukahreinsir eins og það útleggst svo skemmtilega hallærislega á íslensku vera skemmtilegt pæling. Ég hef þó aldrei fengið slíkt hérlendis. Á Balí bjóða veitingahús gjarnan upp á slíkt á milli rétta, oftast í skotformi og er þá um að ræða ferskan þykkan safa (til dæmis mintu- og agúrkusafa) til að hreinsa bragðlaukana milli ólíkra rétta.

Untitled-1 copy_DSC7530

Fyrsti rétturinn kemur frá Noregi og er blálanga með bjór, valhnetugeli, marineraðri peru og algörlega trylltu valhnetugranóla. Þetta granóla ætti staðurinn að selja að staðaldri, segir Linda okkar matgæðingur á EatRVK. Einstaklega stökkt og gott. Gott jafnvægi var í réttinum, hann var allt í senn; sætur, stökkur og saltur. Mjög bragðgóður með hæfilegri áferðarblöndu og hvítvínið sem parað var með var ávaxtaríkt og reif réttinn enn frekar upp. Hola í höggi! Hvítvínið heitir Marques de Casa Concha Chardonnay og kostar 2.999 krónur í Vínbúðinni. Þétt fylling, ósætt, fersk sýra. Eik, vanilla, epli, suðrænn ávöxtur.

_DSC7539

Annar rétturinn kemur frá Íslandi og var hvítlaukssteiktur leturhumar með rabarbara, gulrótarmauki og brennivíns-eggjasósu. Einfaldur réttur þar sem humarinn fær að njóta sín en ég er á þeirri skoðunn að góðum humri eigi ekki að drekkja í meðlæti. Ferskt hvítvínið reif feitann humarinn upp og þetta rann ósköp ljúflega niður. Vínpörun er list sem breytir matarupplifuninni svo sannarlega. Ekki hunsa miðana á rekkunum undir flöskunum í Vínbúðinni. Þeir segja þér allt sem þú þarft að vita. Ekki kaupa alltaf sama vínið heldur skaltu spá í með hverju þú ætlar að drekka það. Fisk, kjöti, engu eða ostum? Á veitingahúsum ertu með sérmenntaða þjóna til að leiða þig í allan sannleikann um veigarnar ljúfu. Nýttu þér sérkunnáttu þeirra!

_DSC7545

Þriðji rétturinn kemur frá Malasíu – brenndur og marineraður túnfiskur með vatnsmelónu, sítrónugraníti, lárperu og sesam-sinnepssósu. Þessi réttur kom hvað mest á óvart og stóð upp úr af fiskréttunum. Við vorum sammála um að þetta væri einn besti túnfiskréttur sem við hefðum komist í kynni við. Rétturinn var mjög ferskur, bragðmikill og sumarlegur. Mig langaði helst til að marinera mig upp úr kókosolíu á sólarströnd eftir að hafa borðað þetta sumarferðarlag. Hvítvínið sem parað var við réttinn er Stemmari,  Pignot Grigio, eitt af mínum uppáhalds vínum um þessar mundir en vínið er einmitt það; létt, ferskt og kemur með einhverja stemmingu í matinn. Ég þoli ekki mjög sæt hvítvín svo þetta er alveg að mínu skapi og ekki er verra að það er á mjög góðu verði. Það er stemming í því!

_DSC7555

Fjórði rétturinn kemur frá Íslandi, nánar tiltekið Kirkjubæjarklaustri. Hægelduð bleikja og blómkál með skyrkremi, sölkexi og bleikjuhrognum. Mér fannst þessi réttur einna sístur en engu að síður bragðgóður. Hann er kannski hefðbundastur og því minna spennandi og svo hata ég hrogn. Heitt og innilega.

_DSC7565

_DSC7570_DSC7542_DSC7541-2Untitled-3 copy

Fimmti rétturinn kemur frá New York. Þessi réttur er kurteisleg útgáfa af hamborgara og ég get ekki beðið eftir að fá mér þessa snilld aftur. Garðarblóðbergs-marínerað nauta rib-eye með reyktu sveppa- og laukmarmeðlaði, agúrku, ristuðu hamborgarabrauði og cheddar ostahlaupi eða þannig er þessum rétti lýst á matseðlinum. Lýsingin er nærri lagi en rétturinn er í raun kurteisleg gourmet-útgáfa af hamborgara. Það er allt þarna en þú sleppur við subbuganginn og spikfeitar franskar kartöflur. Kremaður ostur, fullkomið kjöt, smjörsteikt brauð, beikonbitar, laukur, tómatar, sinnep og sveppir. Með þessu var svo drukkið flauelismjúkt rauðvín og dæst inn á milli af gleði.  Ást og hamingja. Þessi réttur var í uppáhaldi hjá mér ásamt túnfiskinum.

_DSC7578Untitled-2_DSC7593

Sjötti og síðasti rétturinn kemur frá Suðurskautslandinu. Hvít súkkulaðimús, möndlusvampbotn með sítrónukremi, sykurpúðum og jógúrtsnjó. Það rauk upp úr herlegheitunum, hrikalega smart og fallegt að hafa réttinn algjörlega skjannahvítan. Ég dáist að kokknum fyrir að geta hamið sig í að henda einhverjum lit þarna með. Ég elska eftirrétti en ég var svo sátt eftir kjötið að ég hafði varla pláss fyrir þennan rétt. Eins hef ég aldrei skilið hvítt súkkulaði og mér finnst það eiginlega bara nokkuð tilgangslaust. Eins og pilsner. En hinir matgæðingarnir við borðið gerðu réttinum góð skil, hrósuðu ferskum sítrónukeimnum og sykurpúðunum. Ég vil hins vegar hafa kakó í mínu súkkulaði og finnst sykurpúðar vera tilgangslausar hitaeiningar. Ég get því lítið sagt um þennan rétt þar sem það er nokkuð ljóst að það er ég sem er vandamálið – ekki hann!

Matseðilinn kostar 8900 krónur á mann sem mér finnst sanngjarnt verð fyrir afburðaveislu eins og þessa. Stórkostlegt kvöld í alla staði.

Myndir: Íris Ann 

_DSC7609

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *