Ég hef mikla ánægju af því að hafa fallegt í kringum mig. Ferskar kryddjurtir í eldhúsglugganum og gott ilmkerti sem dæmi gera ansi mikið fyrir heimilið. Eftir að hafa legið heima í flensu og faðmað fartölvuna er ég komin með óskalista í eldhúsið og lét eftir mér að panta nokkra hluti. Ég er óskaplega hrifin af marmaralúkki í augnablikinu og það stýrði innkaupunum í þetta sinn. Svart og hvítt finnst mér falleg í klassískum hlutum eins og borðbúnaði eða dýrum hlutum. Eldhúsið má svo poppa upp með litríkum pottablómum, viskustykkjum eða skálum með fersku grænmeti og ávöxtum.
Mig dreymir einnig um svona Aro Garden hitasmágarð eins og myndinni til hægri sem gerir þér kleift að rækta tómata, jarðarber og krydd sem dæmi, á mettíma. Ég nota mikið af ferskum kryddum og það er fljótt að safnast upp í dágóðan kostnað en vinkona mín vill meina að smágarðskrípið sé fljótt að borga sig upp en hann kostar rúmlega 20 þúsund svo þú þarft að elska ferskt krydd til að þetta borgi sig – sem ég geri! Þessi undragarður er þó uppseldur á landinu en kemur hugsanlega aftur. Þangað til eru krukkur og pottar í öllum gluggum.
Mig hefur einnig lengi langað í fallegt marmarabretti en yfirleitt fundist þau of lítil – og fokdýr. Internetið á þó allt og þetta flotta bretti fann ég á Ellos.se sem er uppáhalds síðan mín. Ellos.is sér svo um að panta fyrir mann og ég get sótt vörurnar næst þegar ég fer í Nettó að kaupa í matinn en það eru sömu eigendur að Nettó og Ellos.is. Ath. að það er mun meira úrval á sænsku síðunni en íslenska síðan getur þó pantað flest allt fyrir mann. Brettið er 37×23 cm og kostaði 5.799 krónur heimkomið.
Postulína er íslensk fyrirtæki sem sérhæfir sig í fallegum leirmunum. Fyrir HönnunarMars í ár kynnti Postulína fallega vasa í mörgum mismunandi stærðum sem henta bæði undir blóm eða ávexti eða nánast hvað sem er. Eins gera þær fallega kökudiska, vasa og bolla sem einnig má nota undir lítil blóm í eldhúsgluggann.
Ég er mjög hrifin af því að „létta“ á eldhúsum með því að minnka hlutfall efriskápa og setja fallegar hillur í staðinn. Þar má líka stilla fallegum hlutum upp enda synd og skömm að hafa allt fíneríð á bak við hurðir. Lack hillurnar frá Ikea eru vinsælar í eldhús en þær má einnig klæða með filmu í hvaða lit sem er, eða jafnvel marmara- eða viðarfilmu, nú eða láta klæða þær með speglaflís eins og ein smekkdama sem ég þekki gerði nýverið. Lack hillurnar kosta frá 1.150 kr. Svörtu hilluna sá ég á Ellos.se.
Þetta fagra drykkjarmál er ekki bara það – fagurt heldur er það mjög umhverfisvænt enda margnota – rörið líka! Ég er mikið á ferðinni og kippi gjarnan restinni af morgunsjeiknum með mér í þessu skemmtilega plastglasi frá einu uppáhalds merkinu mínu, House Doctor, sem fæst meðal annars í Fakó á Laugavegi. Þetta glas keypti ég þar á 990 krónur. Dóttir mín fær stundum að sötra morgunþeytinginn sinn úr því við mikinn fögnuð.
Falleg matarstell gera lífið girnilegra. Allavega finnst mér mun skemmtilegra að bera fram mat á fallegum diskum en þó vil ég ekki eiga rándýran borðbúnað sem ég hef ekki efni á að eiga nægilega mikið af eða svíður undan ef eitthvað brotnar. Þetta fallega stell fann ég á Ellos og pantaði mér pastaskálar. Skálarnar voru komnar viku seinna og ég sótti þær í Nettó um leið og ég keypti ferskt pasta til að borða úr skálunum. Skálarnar kostuðu heim komnar 8.599 krónur – 4 stykki saman.
Þetta mínímalíska stell frá Nordique fæst í Ilvu og fangaði athygli mína fyrir stuttu. Klassískt og fallegt. Diskarnir kosta 1.995 kr en pastadiskarnir 3.995 kr.
Annað fallegt matarstell er stellið frá PIP sem bæst í Borð fyrir Tvo og BÓHÓ Grandagarði. Rómantískt stell sem fær mig til að vilja baka alla daga og bjóða konum með stórt hár í köku og te … eða kampavín! Já og tala með breskum hreim.
Falleg viskustykki lífga upp á eldhúsið og gera leiðinleg verk þolanleg. Ég vil gjarnan hafa þau litrík en ég hef ekki rekist á nein slík í nokkurn tíma og ég vil bara alls ekki kaupa viskustykki sem kosta fjögur eða fimm þúsund. Mér finnst það galið! Þessi eru frá By Nord og fást meðal annars í Epal og kosta 2.800 krónur.
Ég minntist hér að ofan á mikilvægi þess að vera með ávexti, blóm og lit í eldhúsinu. Kærkomin leið til að borða meira af ávöxtum og fá lit í eldhúsið er að nýta glervasana sem standa tómir inn í skáp undir ávexti. Þannig mannstu frekar eftir að borða þá og færð ferskleika í eldhúsið. Ef þú átt ekki slíkan grip fást þeir fyrir lítið t.d. í Ikea og Rúmfatalagernum.
Síðast en ekki síst … þá er ég mikil kertamanneskja og kaupi mér alltaf eitt gott ilmkerti í mánuði. Mér finnst einstaklega notalegt – sérstaklega á veturnar að kveikja á kerti í eldhúsglugganum á köldum vetrarmorgnum á meðan ég helli upp á kaffi og geri morgunmatinn. BÓHÓ Grandagarði er með gott úrval af Ilmkertum en skemmtilegust finnast mér þó Rewined-kertin sem koma í vínþrúgu lyktum t.d. Pignot Grigio og Champagne. Ávaxtarík og létt lykt. Kertin koma í endurunnum vínflöskum. Algjört æði. Rewined-kertin eru nokkuð stór og kosta 5.990 krónur.
ATH – Ekki er greitt fyrir þessa umfjöllun með neinum hætti.
Get ég sent þér myndir af matarstelli frá mér td??
Já ertu með verslun? Endilega að senda okkur skemmtilegar ábendingar á eatrvk@gmail.com