Verslaðu í matinn fyrir minna!

Dagsetningarsnobbið!

Ég versla mikið í Nettó úti á Granda en ég bý þar rétt hjá. Ætli ég hafi ekki tekið ástfóstri við verslunina þegar ég var ólétt fyrir tveimur árum. Versluninn er nefnilega opinn allan sólahringinn og einhvern veginn virtist ég hafa þrúgandi þörf fyrir að baka um miðnætti á meðgöngunni. Sem er sérstakt í ljósi þess að mér var stanslaust óglatt og ég þyngdist varla um gramm. Smjör og hafrar voru mér ofarlega í huga og eplakökur og hafraklattar fylltu alla skápa og skúffur. En það er önnur saga.

20160321_151523-1

Ég hef sum sé haldið ástfóstri mínu við Nettó og tók fyrir nokkrum mánuðum eftir átakinu þeirra Minni Sóun. Nettó hefur það að markmiði að minnka „rusl“ sem fyrirtækið lætur frá sér um 100 tonn á ári og stuðla meðal annars að betri nýtingu matvæla með því að koma í veg fyrir að mat sé hent. Þetta finnst mér æðislegt! Í Frakklandi er til dæmis búið að banna matvöruverslunum að henda mat. Verslanirnar verða að gefa matinn til góðgerðastofnanna í stað þess að henda honum. Ég hugsa mikið um endurvinnslu og flokka og skila samviskusamlega. Ég hendi nánast aldrei mat og er ansi lunkin í að elda úr því sem til er. Það er til dæmis dásamleg uppskrift af kalkúnasalati úr páskakalkúninum inn á Eatrvk. Við keyptum svo nýverið metanbíl en ekki aðeins var hann ódýrari sökum þess að hann er metandrifinn (lægri vöru- og bifreiðagjöld) heldur kostar mun minna að keyra á metani en bensíni en metanið er rúmlega 25% ódýrara en bensín. Það er þó bensíntankur líka á bílnum svo ef metanið klárast tekur bensínið við.

2016-03-21_20.36.42

Veisla fyrir 2.122 krónur

En aftur að mínu uppáhaldi – mat! Nettó er með sérstaka afsláttarlímmiða sem fara á matvörur sem stutt er í fyrningardagsetningu á og afslátturinn stigmagnast eftir því sem líftími varanna styttist. Sem dæmi er mjólkin sem hefur stysta líftímann fremst í kælinum og hún merkt með viðeigandi afslætti ef við á. Ég þurfti svolítið að endurhugsa innkaup mín eftir að ég ákvað að stuðla að minni sóun. Því fer ég nú að versla með opnum hug og matseðillinn breytist gjarnan eftir því hvað er á tilboði. Ég keypti til dæmis og eldaði fylltan kjúkling um daginn því hann var á 50% afslætti vegna dagsetningarinnar (rann út daginn eftir). Þvílík veisla sem það var. Sætar kartöflur, maís og grillaðar gulrætur. Meistaraleg veisla fyrir rúmlega 2.000 krónur! Við grænmetisdeildina er svo karfa með grænmeti sem kominn er afsláttur á. Ef þú ætlar hvort sem er að elda matinn sama dag er í raun fásinna að kaupa matvöru með lengri líftíma í stað þess að nýta þetta tilboð. Ég verð að viðurkenna að fyrst þegar ég skoðaði í tilboðskörfuna hvarflaði að mér að fólk gæti haldið að ég ætti ekki fyrir mat. Sem er galið. Dagsetningasnobb er hreinlega galið. Af hverju að eyða meiri pening og sóa mat og menga þegar maður getur sleppt því? Það er smart að hugsa vel um náttúruna og peningana sína. Því vildi ég vekja máls á þessu málefni og hvetja sem flesta til að hugsa áður en þeir henda og reyna að versla eins skynsamlega og hægt er, til dæmis með því að borða afganga úr ísskápnum einn dag í viku og versla vörur merktar Minni Sóun. Sjálf ætla ég að elda á hverjum degi næstu sjö daga úr Minni Sóun vörum. Uppskriftirnar getið þið nálgast hér á síðunni ef þið viljið fylgjast með. Einnig mun ég biðja Nettó um að setja inn myndir af afrakstrinum á Facebook-síðuna sína. Ég er nokkuð viss um að girnilegur afraksturinn mun koma ykkur á óvart og verðið líka!

Athugið að fleiri verslanir eru líka að vinna gegn matarsóun en ég hef ekki séð neina verslun gera það með jafn markvissum hætti og Nettó. Aðrar verslanir mættu gjarnan taka þetta upp. Og við hin þurfum að varast dagsetningarsnobbið!

líftími

17 Comments on “Verslaðu í matinn fyrir minna!

  1. Bónus hefur gert þetta í mörg ár í grænmetinu.
    Hagkaup og amk Iceland setja kjöt og fisk niður 50% degi áður en það rennur út.
    Það er bara að hafa augun opin 🙂

  2. Pingback: Ljúffeng eplapæja – Minni sóun | EatRVK

  3. Pingback: Klassísk kjötsúpa – Minni sóun | EatRVK

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *