Í vetur fór ég í afmælisveislu hjá vinkonu minni Oddnýju Magnadóttur sem er matgæðingur par exelans. Þegar maður fer til hennar er maður oft kominn í matarhimnaríki og í þessari veislu var á boðstólum besti heiti ostur sem ég hef smakkað. Ég hef verið að hugsa um þennan ostarétt síðan og fékk ég svo uppskriftina hjá henni um daginn. Ég breytti henni aðeins til að passa við lítinn camembert eða brie og setti klípu af salti saman við sýrópið til að gefa því smá meiri dýpt. Þessi réttur er snilld í saumaklúbbinn, EM partýið, matarboðið eða bara fyrir kósýkvöld.
Dýrðlegur bakaður ostur með Kahlua- og pekanhnetusýrópi
2016-06-17 13:56:38
Dýrðlegur og einfaldur ostaréttur sem allir munu vilja uppskriftina af.
Innihaldsefni
- 1 stk camembert eða brie
- 1 1/2 dl Kahlua líkjör
- 1 1/2 dl púðursykur
- 1 1/2 dl pekanhnetur, gróft saxaðar
- Hnífsoddur af Maldonsalti
Leiðbeiningar
- Skerið efsta hlutann (toppinn) af ostinum og skiljið hann eftir á meðan osturinn er í ofninum.
- Bakið ostinn á smjörpappír í um 15 mínútur við 175 gráður.
- Setjið Kahlua og sykur í pott og látið suðuna koma upp. Hitið svo sýrópið áfram við vægan hita í um 10 mínútur. Hrærið reglulega í sýrópsblöndunni.
- Bætið pecanhnetum saman við sýrópið og leyfið þeim að liggja í blöndunni í um tvær mínútur.
- Setjið ostinn í skál og takið toppinn af, hellið blöndunni yfir.
- Berið fram með þessu pítabrauð, gott snittubrauð eða kex.
EatRVK https://eatrvk.is/
Pingback: Tiramisu með kalhúasírópi | EatRVK