Þennan hummus fékk ég hjá systur minni ekki fyrir löngu en hún er snillingur í eldhúsinu. Dóttir hennar og tengdasonur eru bæði vegan og því hefur eldamennska hennar breyst mikið síðustu mánuði og nú eldar hún hvern dásemdar grænmetisréttinn á fætur öðrum. Ég ætla að leyfa ykkur njóta þess á næstu mánuðum og deila með ykkur uppáhalds vegan uppskriftunum frá henni. Þegar ég fékk þennan hummus hjá henni þá hætti ég ekki að brosa, hann er dásamlegur! Skrítið hvað góður matur getur glatt hjartað! Enginn verður svikinn af því að gera þennan hummus og svo er hann líka svo fljótgerður. Ég ber hann fram með góðu brauði og að mínu mati er súrdeigsbrauðið frá The Coocoo’s Nest það besta í bænum og passar fullkomnlega með þessum dýrðar hummus. Hann er einnig stórkostlegur á vefjur. Það má líka sleppa kjúklingabaununum og setja meiri olíu og þá ertu komin með snilldar sósu með salati eða til að marinera kjúkling upp úr.
- 1 dós kjúklingabaunir, skolaðar og sigtaðar
- 3 msk hnetusmjör - ég notaði gróft lífrænt hnetusmjör frá Rapunzel
- 1-2 msk Sriracha sósa (hún er mjög sterk svo farið varlega og smakkið til)
- 1 msk maukaður engifer, ferskur
- 2 litlir hvítlauksgeirar
- 1/2-1 msk hunang eða maple-síróp/agave fyrir vegan (má sleppa)
- 1 msk ólífuolía
- 3-4 msk af klakavatni
- 1/2 bolli salthnetur, gróft saxaðar
- 2 vorlaukar saxaðir smátt
- 1 búnt kóríander, saxað
- Safi úr 1/2 lime, má sleppa
- Salt og pipar eftir smekk
- Setjið kjúklingabaunir, hnetusmjör, Sriracha sósuna, engifer, hvítlaukinn, hunangið (eða maple-sýrópið/agave), salt og pipar í matvinnsluvél og blandið vel saman.
- Með vélina í gangi hellið ólífuolíunni ásamt klakavatninu í, þetta hjálpar blöndunni að verða dásamlega mjúk og góð.
- Setjið blönduna í skál og kreistið lime safa yfir og blandið svo saman við hana hnetunum, kóríanderinu og vorlauknum með sleif.
Æðisleg uppskrift. Þessi er orðin ein af uppáhalds.
Frábært að heyra Berglind 😉
Pingback: Hummus með karamellu-lauk | EatRVK