Þessar snjóboltasmákökur eru vinsælar um allan heim og margar uppskriftir eru til en hér er sú sem mér þykir best. Ég bæti alltaf við súkkulaði í mína uppskrift því eins og við vitum er flest betra með smá súkkulaði. Þessar kökur eru mjög léttar og hreinlega bráðna í munninum eins og snjór. Það er snilld að eiga þessar í frystinum og bjóða sem eftirrétt með góðu kaffi eða glasi af kampavíni.
Snjóboltasmákökur sem bráðna í munninum
2016-08-13 20:00:34
Dásamlegir og bragðgóðir snjóboltar.
Innihaldsefni
- 1 bolli mjúkt smjör
- 1/2 bolli flórsykur
- 1 tsk kókos-, möndlu- eða vanilludropar
- 2 1/4 bolli hveiti
- 1/2 tsk salt
- 1 poki súkkulaðidropar Konsum
- Flórsykur
Leiðbeiningar
- Hitið ofninn í 180 gráður.
- Setjið smjörið, kókos-, möndlu- eða vanilludropana og flórsykur í hrærivélarskál og látið blandast vel saman, eða þar til blandan er létt og ljós.
- Bætið hveitinu og saltinu saman við og hrærið vel saman.
- Bætið súkkulaðidropum í deigið og blandið saman með sleif.
- Mótið eina msk af deigi í kúlu og setjið á smjörpappír.
- Bakið í 10-15 mínútur eða þar til botninn er orðinn örlítið gylltur.
- Látið kökurnar kólna og veltið svo upp úr flórsykri, ég velti þeim alltaf aftur rétt áður en þær eru bornar fram.
Athugasemdir
- Ég gerði þessar einu sinni með handþeytara og það er í eina skiptið sem þær heppnuðust ekki. Mín regla er að þegar smjörinu og flórsykrinum er hrært saman er betra að láta vélina hræra aðeins meira en minna.
EatRVK https://eatrvk.is/