Þessi pitsa er og verður alltaf í miklu uppáhaldi og því var ég spennt að deila henni með lesendum af Matur á Mbl.is. Það eru svo margir bragðlaukar sem fá að gleðjast þegar þessi pitsa er borðuð. Humarinn, pistasíurnar og dressingin er fullkomin blanda. Þessi uppskrift hefur verið lengi í bókinni minni og margir fengið hana hjá mér. Ég er svo heppin að eiga pitsaofn sem er mikið notaður og er mikil snilld. Pitsurnar eru einfaldlega mikið betri úr honum en ef þið gerið þær í ofni er best að hafa þær á pizzabakka(fæst í IKEA) og hafa pitsuna neðarlega í ofninum. Þessi humarpitsa er bæði sparileg og djúsí og hentar einstaklega vel ef gera á vel við sig um helgina. Fyrir þá sem vilja létta sér lífið má vel kaupa tilbúið deig eða jafnvel útflatt á smjörpappír eins og víða fæst í stórmörkuðum. Svo er bara fá sér góða hvítvín með og njóta
Mynd Mbl.is/Árni Sæberg
- 4 stk. (af 12"stærð)
- 2 dl vatn
- ½ dl olífuolía
- ½ dl pilsner eða bjór
- ½ kíló hveiti
- ½ poki þurrger
- 1 tsk. salt
- 1 msk. hunang
- Safi úr einni sítrónu
- 4 msk. góð ólífuolía
- 4 tsk. gróft sinnep
- 6-8 msk. hunang
- Salt og pipa eftir smekk
- Humar, skelflettur og hreinsaður.
- Magn er smekksatriði en ég hef yfirleitt meira af humri en minna.
- ólífuolía
- hvítlausrif
- rifinn mozzarellaostur, eftir smekk (ca. 2 pokar á 4 pitsur.)
- 1/4 tsk. saffran
- 1 poki ósaltaðar pistasíuhnetur gróf saxaðar, það fer um 1/4 af poka á hverja pitsu
- 2 pokar klettakál, 1/2 poki á hverja pitsu
- Blandið vatni, olíu, hunangi og pilsner/bjór saman og velgið upp að ca. 37°.
- Leysið gerið upp í volgum vökvanum.
- Bæta hveiti og salti saman við.
- Hnoðið vel saman, látið hefast í 30-40 mín.
- Kreistið safa úr einni sítrónu og blandið saman við olíu, sinnep og hunang, pískið vel saman.
- Salt og pipar eftir smekk.
- Best er að gera sósuna meðan deigið er að hefast og setja í kæli þar til hún er notuð.
- Humarinn er settur í skál ásamt olífuolíu og 1 mörðu hvítlauksrifi.
- Deiginu er skipt í 4 kúlur og það flatt vel út.
- Osturinn fer beint á botninn (sósan kemur í lokin.)
- Rétt áður en humarinn er tekinn úr skálinni er saffraninu stráð yfir humarinn og því blandað vel við.
- Humrinum er raðað yfir ostinn og svo koma hneturnar.
- Bakið pitsurnar á á 200°C í 10-15 mín. eða þar til humarinn er tilbúinn. Ég nota pitsuofn og þar tekur það styttri tíma.
- Þegar pitsan er komin úr ofninum er klettakálinu stráð yfir og sósunni hellt létt yfir.