Ég hreinlega elska gott bananabrauð og einnig ostakökur og ég geri oft bananamöffins með ostakökufyllingu og einn daginn varð til þessi blanda þar sem ég átti aðeins fleiri banana og langaði meira í bananabrauð en möffins og einnig að prufa eitthvað nýtt. Mér finnst best að borða það volgt með góðu kaffi og kannski smá vanilluís en það er einnig gott þegar það hefur kólnað. Þegar veðrið er eins og það hefur verið er ekkert betra en að baka og njóta inni í hlýjunni með fjölskyldunni. Þessa uppskrift gerði ég um daginn fyrir vefinn góða Matur á mbl.is og varð að deila henni með ykkur hér þar sem hún er núna í miklu uppáhaldi.
- 1 stórt egg
- ½ bolli púðursykur
- ¼ bolli sykur
- ¼ bolli fljótandi kókosolía eða jurtaolía
- ¼ bolli grísk jógúrt en sýrður rjómi virkar einnig
- 2 tsk vanilla dropar
- 2 maukaðir velþroskaðir bananar
- 1 bolli hveiti
- ½ tsk matarsódi
- ½ tsk lyftiduft
- klipa af salti
- 1 stórt egg
- 220 gr mjúkur rjómaostur, best ef hann er við stofuhita
- ¼ bolli sykur
- 3 msk hveiti
- Hitið ofninn í 180 gráður
- Pennslið brauðform og dustið það með hveiti og setjið til hliðar
- Í stóra skál blandið saman eggi, sykri, kókosolíu, grísku jógúrtina, vanillu dropum og pískið vel saman með handþeytara.
- Bætið bönunum saman við og blandið rólega saman
- Setjið saman við blönduna hveiti, matarsóda og lyftiduft og örlítið af salti og blandið saman með sleif rólega, ekki blanda of mikið saman og setjið til hliðar
- Í skál setjið þið allt hráefni fyrir ostakökufyllinguna og blandið saman með písk eða handþeytara
- Setjið 2/3 af bananadeiginu í formið og sléttið úr með sleif, hellið ostakökublöndunni yfir og slettið aftur svo er rest af bananablöndunni hellt yfir
- Bakið í ofni í 45-50 mínútur og leyfið að standa og kólna í 15 mínútur eða þar til hægt er að njóta.