Við Kalli maðurinn minn fórum í matarboð til gamals skólafélaga hans um daginn. Þetta fólk hafði ég aldrei hitt áður og vissi því ekkert á hverju var von. Sláturkeppir og hvítvín? Eða tofu og mysa?
Ó mæ. Þau hittu mig beint í hjartastað. Ég er komin með matarást á þessu dásamlega fólki. Ekki bara eru þau listakokkar heldur hafa þau útbúið æðsilega sólstofu í lítilli viðbyggingu við húsið sem gerði matarboðið enn meira sjarmerandi. Húsbóndinn á heimilinu hefur ferðast mikið og er lunkinn við að kynna sér nýja matargerð. Hann var ekkert að slugsa við matagerðina og bauð upp á þrettán rétta persnenska veislu! Endirinn var svo ómótstæðileg heimagerð klakaskál full af ís og berjum!
Skálin hélt ísnum köldum og gladdi svo sannarlega augað. Ég mátti því til með að finna út hvernig slík snilld er gerð.
Þú þarft:
- Tvær álskálar. Önnur þarf að vera minni en klakaskálin verður til í holrúminu á milli skálanna
- Eitthvað til að þyngja aðra skálina
- Gott límband
- Blóm, ber, ávexti eða annað til að skreyta innviði klakaskálarinnar með
Skrautinu er raðað ofan í tóma stærri skálina. Ef þú ert að nota ber eða eitthvað sem tollir illa nema í botninum getur þú sett þau eftir að vatnið er komið í eða skorið þau í tvennt. Minni skálin er sett ofan í þá stærri og límt yfir til að halda henni niðri. Þungur hlutur til að vinna á móti vatninu er settur ofan í minni skálina. Athugið að hluturinn þarf að þola frost. Því næst er að hella köldu vatni ofan í stærri skálina. Að lokum getur þú bætt við skrauti ofan í vatnið. Skálin fer svo í frysti yfir nótt og þarf að standa bein. Þegar skálin er tilbúin skaltu láta volgt vatn renna á hana til að losa álskálarnar frá. Passaðu að setja bakka undir skálina svo vatnið af henni leki ekki út um allt.
Skálin er tilvalin undir klaka, ís eða jafnvel drykkjarflöskur!