Það er alltaf gaman að baka nýjar og öðruvísi múffur. Ég mæli með að prufa sig áfram með sultur í þessari uppskrift. Mér finnst berjasultur bestar og í þetta sinn notaði ég jarðarberja- og rabarbarasultu sem ég gerði um daginn.
Jarðarberjafylltar múffur
Deigið dugir í 12 múffur
- 150 g sykur
- 200 g hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 150 ml grísk jógúrt eða AB mjólk
- 2 stór egg eða 3 venjuleg
- 1 tsk vanilla extract
- 150 g smjör
- 12 tsk sulta
- 3 msk flórsykur til að dusta yfir
- Blandið saman öllum þurrefnum í skál.
- Bræðið smjörið og setjið til hliðar.
- Setjið jógúrt, egg og vanillu í aðra skál og blandið vel saman með pískara.
- Blandið blautefnunum saman við þurrefnin, bætið því næst smjörinu við og blandið vel saman.
- Penslið múffuformin og setjið eina kúfaða matskeið í hvert form.
- Setjið eina tsk af sultu ofan á og svo restina af deginu yfir hverja múffu.
- Bakið í 180 gráðu heitum ofni í um 20 mínútur.
- Látnar kólna og sigtið flórsykri yfir.