Fátt er betra en súkkulaði sem þú getur borðað án þess að fyllast af sálarangist og samviskubiti. Þetta konfekt er stútfullt af næringu og þú þart ekki að gráta í tvo tíma í sturtu með vírbursta þó þú laumist í nokkra mola á hverjum degi! Heimagert hrásúkkulaði er nefnilega fullt af andoxunarefnum, hollri fitu, járni og magnesíum. Konfektið er reyndar hitaeiningaríkt þó þetta séu vissulega „góðar“ hitaeiningar.
Sykurlaust hrákonfekt
- 140 g kakósmjör (t.d frá Sollu)
- 30 g hnetusmjör
- 30 g kókossmjör
- 60 – 80 g hreint ósætt kakó (t.d frá Sollu)
- 10 –15 dropar vanillustevía frá Via Health
- 10 –15 dropar karamellustevía frá Via Health
- 2 msk hunang eða agave síróp (má sleppa)
- ¼ tsk sjávarsalt
- Kakó-, hnetu- og kókossmjörið er brætt í vatnsbaði. Ef þú finnur ekki kókossmjör er lítið mál að búa það til. Það er gert með því að setja ristaðar kókosflögur í matvinnsluvél ásamt 1 msk af kókosolíu. Vélin er látin ganga þar til flögurnar verða að smjöri. Einnig má nota meira af kakósmjöri í staðinn en kókóssmjör er einstaklega kremað og ljúft á bragðið.
- Þegar smjörið er bráðnað er því hellt í skál ásamt hinum innihaldsefnunum og hrært í nokkrar mínútur með gaffli þar til silkimjúkt og kekkjalaust. Gott er að hræra með gafflinum í 3–4 mínútur svo súkkulaðið verði mjúkt og fái fallega áferð. Smakkaðu þig endilega áfram með stevíuna og saltið.
- Þegar bragðið er orðið ómótstæðilegt er blandan sett í mót með skeið, t.d. sílíkonmót eða örsmá möffinsform. Séu hin síðarnefndu notuð má skreyta molana með goji-berjum, kókosflögum eða pekanhnetum.
- Því næst fara mótin inn í frysti í 30 mínútur. Passaðu að mótin séu bein á meðan molarnir stífna.
Best er að geyma molana í lokuðu íláti í frysti. Jafnvel læstu.
Mynd; Íris Ann
Borðbúnaður: BOHO