Ég skellti mér á frábært konfektnámskeið um daginn hjá Nóa Siríus. Þar sýndu og kenndu Axel Þorsteinsson (e.þ.s. hinn íslenski Brad Pitt) og Ingibjörg Helga Ingólfsdóttir, konditorar hvernig gera á konfekt á einfaldan hátt. Þetta var vel skipulagt námskeið þar sem kenndir voru helstu þættir konfektgerðar, svo sem að tempra mismunandi súkkulaði, hvernig maður fyllir mola, fær fallegan glans á konfektið og margt fleira. Eftir fræðsluna fékk maður að gera mola sjálfur, fylla og auðvitað að smakka sem er alltaf skemmtilegast.
Eftir konfektgerðina voru fallegu molarnir settir í box og fékk hver þáttakandi um 25-30 mola með sér heim. Þegar heim var komið fór ég beint á netið að leita að hvar ég gæti fengið falleg harðplasta konfektmót, því þau gefa þennan fallega glans á konfektmolana eins og Nói Siríus eru frægir fyrir. Það er einnig mun auðveldara að gera fyllta mola eftir að hafa farið á námskeiðið en þar lærði ég að fylla með sprautupoka. Mæli með að þið kíkjið á þetta námskeið en upplýsingar má finna á Facebooksíðu Nóa Síríus. Ef þið komist ekki þá er um að gera að fara á Apótekið og smakka dásemdirnar sem hann Axel er að búa til þar. Ég fékk leyfi til að deila með ykkur uppskrift af uppáhaldsmolanum mínum – og ekki spillir fyrir hve auðveldur hann er!
Lakkrís- og hnetusúkkulaðimoli
- 150 gr Siríus rjóma- eða suðusúkkulaði
- 150 gr lakkrískurl
- 35 gr kasjúhnetur (ristaðar og saxaðar gróft)
- 35 gr pistasíur (saxaðar gróft)
- Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og blandið svo hnetum og kurli vel saman við.
- Setjið blönduna á smjörpappír með teskeið.
- Þú ræður auðvitað stærðinni á molunum en mín reynsla var að best væri að hafa þá eins og tíkall að stærð, úlfarnir mínir voru þá aðeins lengur að klára þá.
- Setjið molana í kæli í um einn tíma, ef hægt er að bíða svo lengi.