Halldór Steinsson er matreiðslumaður á Náttúrulækningastofnuninni í Hveragerði. Maturinn sem borin er þar á borð er sannkallað lostæti sem fer vel í líkama og sál. Ég hef lengi haldið því fram að þarna sé einn besti salatbar landsins og án efa besti morgungrautur heims. Ég hvet þá sem eiga leið um Hveragerði til að koma við og fá sér að borða en matstofan er opin gestum. Hádegismaturinn er stærsta máltíð dagsins og ég get lofað ykkur að það er vel ferðarinnar virði. Hér deilir Halldór með okkur uppskrift af hinum sívinsælu Svartbaunaborgurum staðarins með sólkjarnamajó.
Svartbauna- og kínóaborgarar
2015-12-26 18:01:02
6-8 borgarar
Innihaldsefni
- 400 gr soðnar svartar baunir
- 200 gr soðið kínóa
- 80 gr (ca 6-8 stk) sólþurrkaðir tómatar úr krukku, smátt skornir
- 1 meðalstór laukur, smátt skorinn
- 2 hvítlauksrif, marin
- 1 stór sellerístöngull, smátt skorinn
- 1 lúka saxað ferskt kóríander
- ½ tsk svartur pipar
- ½ tsk reykt paprikuduft
- ½ tsk timjan
- ½ tsk salt
Leiðbeiningar
- Laukurinn er svitaður á pönnu ásamt selleríinu, tómötunum, hvítlauk og þurrkryddunum.
- Því næst er allt sett í skál og hnoðað.
- Borgarar mótaðir og lagðir á smurða ofnplötu og eldaðir á 180 gráðum í 25 mín, þá er þeim snúið við og bakaðir áfram í 10 mín.
Athugasemdir
- Með borgurunum er gott að nota avacado, tómata, maís og ferskt kóríander. Eins má baka sætar kartöflur í bátum í ofni og nota sem "franskar" með.
EatRVK https://eatrvk.is/
Sólkjarnamajó
2015-12-26 18:17:33
Dásamlegt majó með t.d. svartbaunaborgara eða sætkartöflu frönskum .
Innihaldsefni
- 200 gr sólblómafræ
- 400 ml vatn
- 2 hvítlauksrif
- safi úr ½ sítrónu
- 1 tsk eplaedik
- ½ tsk reykt paprikuduft
- ½ tsk salt
- kjarnar úr ½ granatepli
Leiðbeiningar
- Leggið sólblómafræin í bleyti í minnst 2 tíma, sigtið svo vatnið frá.
- Setjið þau í öflugan Blender ásamt 400 ml af vatni og öllu hinu. Unnið þangað til silkimjúkt og fínt. Sett í krukku og toppað með granateplakjörnum.
EatRVK https://eatrvk.is/