Vegan-matseðill Íslandsmeistara

Systurnar Hildur Sif Hauksdóttir sálfræðinemi og Jóna Kristín Hauksdóttir hagfræðingur eru konurnar á bak við vefinn vegan.fitness sem notið hefur mikilla vinsælda. Báðar spila þær knattspyrnu með Íslandsmeisturum Breiðabliks og eru miklir matgæðingar en þær systur eru báðar vegan.  „Fyrir um það bil 2-3 árum fórum við að pæla mikið í vegan lífstíl, til að byrja með fóru mjólkurvörurnar og rautt kjöt út en síðastliðið ár höfum við ekki neytt neinna dýraafurða,“ segja þær stöllur og bæta því við að að mestu leyti sé þetta ekki of flókið þó veitingahús séu mis-móttækileg fyrir veganisma. „Það getur verið snúið að vera vegan þegar við förum út að borða á veitingastöðum með stórum hópi. Samt verð ég að segja að á þessum 2 árum sem við höfum verið tengdar vegan-lífstíl á einn eða annan hátt hafa orðir rosalegar framfarir. Þú getur í rauninni fengið vegan staðkvæmdarvörur fyrir hvað sem er og þarft því í rauninni ekki að “taka neitt út”. Það virðist sem fleiri og fleiri séu að verða meðvitaðir um kosti þessa lífstíls. Skemmtilegasta áskorunin er að kynna/útskýra fyrir fólki vegan lífstíl því það er rosalega mikil fáfræði í kringum grænmetisfæði.“

Jóna er algjör sælkeri og finnst gaman að prófa sig áfram með allskonar sætindi, döðlukúlur, banana-ís, smoothie, kökur og pönnukökur en Hildi finnst gaman að elda djúsí kvöldmat. En miðað við allt það girnilega sem þær birta á síðunni sinni hljóta þær að eyða öllum deginum í eldhúsinu, eða hvað? 
„Já og nei. Þegar við erum að prófa nýjar uppskriftir getur undirbúningurinn verið frekar mikill. Stundum þurfum við að fara í nokkrar búðir til að eltast við ákveðnar vörur í uppskriftirnar. Í miðri viku erum við oftast með eitthvað einfalt og fljótgert, eins og til dæmis núðlu-, bauna-, pasta- og grænmetisrétti.
Að vera vegan á Íslandi er ekkert mál. Við höfum ótrúlegt magn af flottum vegan staðkvæmdarvörum. Það þarf því ekki að neita sér um neitt; mjólk, ostur, súkkulaði, brauð, snakk – það er allt til og í boði án dýraafurða. Það er því vel hægt að vera vegan án þess að vera einhver svakalegur heilsugúrú. Það er því ekkert samasem-merki milli þess að vera vegan og að borða bara gras eins og svo margir vilja halda,“ segja þær systur og deila hér með okkur tillögu að góðum dagseðli fyrir þá sem vilja prufa að vera vegan í einn dag.

IMG_4814Morgunn: Lúxus hafragrautur  
50 gr hafrar soðnir uppúr möndlu- eða hnetumjólk.
Bæta við rúsínum og hreinu kakódufti og toppa með okkar uppáhalds ávöxtum/fræjum (banani, bláber, kókos, hörfræ & chiafræ).

IMG_4818Hádegi: Sæt kartafla
Stór sæt kartafla bökuð í 60 min á 180 °c.
Toppuð með papriku, lauk, gúrku, avocado og balsamic vinegar dressingu.

IMG_4816Millimál: Grænkáls-smoothie
1 Banani
1 Appelsína
½ Sítróna
Handfylli grænkál
Handfylli spínat
1 bolli frosinn ananas
Allt sett í blandara og blandað uns kekkjalaust

IMG_4813Kvöldverður: Teriyaki hrísgrjónanúðlur  Fljótlegt
400 gr hrísgrjónanúðlur
1 haus brokkolí
4 stórar gulrætur skornar smátt
1 paprika
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
1 box sveppir
Handfylli af spínati (sett út á í lokin)
Hrísgrjónanúðlur lagðar í bleyti (sjóðandi vatn – ekki sjóða núðlurnar) og steiktar á pönnu með grænmeti og teryaki sósu

IMG_4819Desert/millimál: Einfaldar döðlukúlur
400 gr döðlur
250-300 gr haframjöl
2 msk hreint kakó
Kókosmjöl eftir smekk
Döðlur mýktar í sjóðandi vatni. Haframjöl, döðlur og kakó maukað saman í matvinnsluvél. Kúlunum síðan velt uppúr kókosmjöli. Bestar beint úr frystinum. ☺


* Svona lítur týpískur dagur út hjá okkur. ☺

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *