Túnfisksalat með epli og chili

Hver elskar ekki gott túnfisksalat? Mér finnst dásamlegt um helgar að fá nýbakað brauð eða heimagert hrökkbrauð og salat til að njóta með fjölskyldunni, ég set hér krækjur á einfaldar og góðar uppskriftir fyrir ykkur sem ég nota oft. Þessi salatuppskrift varð til eftir að vinkona mín kom í heimsókn með góðgæti og þar á meðal var túnfisksalat með eplum sem sló heldur betur í gegn. Ekki veit ég af hverju eplin eru svona fullkomin með túnfiski en þetta er snilldar samsetning. Auðvitað vildi ég svo fara bæta við smá chili enda svo gott að setja það í flest allan mat.  Þessi uppskrift er stór enda er ég með þrjá drengi sem skófla þessu í sig. Auðvelt er þó að helminga uppskriftina og fyrir þá sem vilja ekki sterkt er um að gera hafa minna af shiraz sósunni.

Túnfisksalat með eplum og chili

4 egg, harðsoðin og skorin smátt

1 rauðlaukur smátt saxaður

2 dósir túnfiskur og vökvi tekinn af

1 grænt epli, hýði tekið af og saxað í litla bita

1 chili saxað smátt, takið fræin úr ef það er lítið (lítil eru sterkari) og saxið smátt

5 – 6 msk majónes

3 – 4 tsk af Shiraz sósu, fæst í flestum búðum. Gott er að byrja á einni og smakka til ef þið viljið ekki of sterkt salat

 

Allt sett saman í skál og blandað vel saman, njótið svo með nýbökuðu brauði, hrökkbrauði eða öðru kexi.

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *