Um daginn sá ég auglýstan döðlusykur og varð ég mjög spennt að prufa hann enda elska ég að nota döðlur í matargerð. Ég skellti mér strax útí Nettó þar sem ég náði, held ég, síðasta pokanum af döðlusykrinum. Ég velti töluvert fyrir mér hvað ég ætti að nota hann í og langaði að baka gott brauð. Að lokum varð þetta dýrðlega brauð útkoman og ekki er verra að auðvelt er að gera það vegan. Þetta er brauð sem má borða með góðri samvisku enda er það stútfullt af næringu og náttúrulegri sætu. Þessi uppskrift var birt í sérblaði Morgunblaðsins um daginn.
Dýrðlegt döðlubrauð með pistasíum
2017-03-06 20:54:05
Innihaldsefni
- 2 bollar döðlur
- 1 bolli vatn
- 1 msk. smjör eða kókosolía
- 1 tsk. matarsódi
- 1/4 bolli eplamauk eða 1 egg
- 1 bolli hveiti/heilhveiti
- 1 bolli haframjöl
- 1 tsk. lyftiduft
- 2/3 bolli döðlusykur, það má alveg setja 1/2 bolla ef þið viljið minnka sykurinn enn meira
- 1/2 bolli saxaðar pistasíur
Leiðbeiningar
- Sjóðið döðlurnar með vatni og smjöri/kókosolíu við miðlungs hita,. Bætið einni tsk. af matarsóda við og látið malla þar til blandan er orðin maukkennd og látið þá kólna.
- Setjið önnur innihaldsefni í skál og blandið saman.
- Setjið döðlumauk saman við.
- Penslið brauðform, deiginu komið fyrir og bakað í ofni í 40 mínútur við 180 gráður eða þar til prjónninn kemur hreinn úr brauðinu.
EatRVK https://eatrvk.is/