Jólagjafir handa gourmetfólkinu!

Við þekkjum flest einhvern sem segist ekki vanta neitt – eða hreinlega á nánast allt til alls. Þá er sniðugt að spila inn á bragðlaukana.  Hér eru nokkrar góðar hugmyndir að jólagjöfum handa gourmetfólkinu. Fæstir fá nóg af kræsingum, fróðleik og upplifunum. Allavega heyri ég eitthvað minna af því og meira af tauti yfir kertastjaka númer 18!

Kósíkarfan! Dalla systir hennar mömmu er mikill matarunnandi og frábær í eldhúsinu, gift kokki og kann að njóta lífsins. Hún gaf dóttur sinni ein jólin frosna gourmet-nautasteik, sósugrunn, rauðvínsflösku og ávísun á barnapössun. Persónuleg og smart gjöf. Ég mæli með að heimsækja Matarbúrið, kjötbúðina á Grandagarði þar sem Doddi og konan hans standa vaktina.

Vínkúturinn lekkeri. Ég rakst á þessa snilld á facebook þar sem fjöldi vina minna er að „læka“ myndir af lekkerheitunum. Þetta er sum sé kútur undir léttvín svo beljan ljóta sjáist ekki. Snilldin er fólgin í því að kælipoki fylgir með til að kæla hvítvín eða aðra drykki. Auka plastpoka er hægt að kaupa ef þú vilt setja kokteil eða t.d. safa í barnaafmæli í kútinn fagra. Kútarnir frá Fiduz eru hluti af dönskri hönnunarlínu og eru einungis seldir á netinu. Kúturinn fæst í mörgum litum og er sendur frítt heim. Línan er einnig með ansi skemmtilegar flöskufestingar á vegg.

fiduz-vindispenser-dansk-design

Beljur verða vart minna vandræðalegar en í þessum fallega kút.

Heimalöguð huggulegheit! Það er fátt meira heilnæmara og hollara en heimagerður glaðningur án aukaefna. Heimagert pestó, kryddblöndur, múslí, sultur, brauð eða bara hvað sem þér dettur í hug. Endurnýttu fallegar krukkur og skreyttu með borða. Linda gerði nokkrar frábærar útfærslur fyrir jólin. Sjá hér!

mynd2möndlur

Mynd: Heiða Halls

Ostaskólinn er staðsettur í sælkeraversluninni Búrinu. Námskeiðin eru af ýmsum toga, meðal annars ostar og te, ostar og vín, ostar og kampavín eða bara ostar og ostar! Námskeiðin eru um það bil 2 klst. af gómsætri ostafræðslu þar sem ostar og meðlæti samsvara léttri máltíð. Engin heimavinna eða frímínútur! 

Salt eldhús býður upp á heilan heim af spennandi námskeiðum sem kitla bragðlaukana. Indversk matargerð, eftirréttir, hollustufæði, súrdeigsbakstur, pastagerð, sýrt grænmeti eða sósur! Úrvalið er stórkostlegt. Gjafakortin koma í fallegri öskju með stauk af íslensku sjávarsalti en þú getur valið um að gefa vissa upphæð sem gengur þá upp í námskeið eða kaupa gjafakort fyrir öllu námskeiðsgjaldinu. Innifalið er m.a. vín með matnum, uppskriftamappa og afnot af svuntu. Sum stéttafélög niðurgreiða námskeiðin.

Þurrefni í fallegum lögum í brauðgerð, kakó, pönnukökur eða múslí eru falleg gjöf.

Leirbað á Náttúrulækningastofnun Íslands er frumleg og heilsusamleg gjöf. Flestir hafa prufað nudd en leirbað er mun flippaðri upplifun og einstaklega hreinsandi og slakandi. Leirinn kemur úr íslenskum fjallshlíðum og húðin verður silkimjúk eftir notkun. Aðgangur að baðhúsi Heilsustofunarinnar fylgir með og því tilvalið að fara í sund og gufu fyrir leirbaðið. Eftir baðið er fátt betra en að fá sér heilnæman hádegisverð í matsalnum. HNLFÍ býður einnig upp á fjölda skemmtilegra námskeiða.

Síðbúin morgunverður eða bröns eins og flestir kalla þessa gómsætu máltíð nýtur sífellt meiri vinsælda hérlendis og bjóða þó nokkrir staðir upp á gjafabréf. Þú getur valið um hlaðborð eða matseðil eftir því hvaða stað þú velur. Gjafabréf á bröns er yfirleitt mun ódýrara en að gefa kvöldmáltíð en er ekki síðri upplifun. 

coocoosbrucnh

Egg Florentine á Coocoo’s Nest. mynd: Íris Ann

Kósýkitt! Sýndu þeim sem þér finnst vænt um að þú þekkir viðkomandi vel með því að njósna hvaða lystisemdir hann eða hún aðhyllist og skella þeim (lystisemdunum) í körfu eða kassa (mandarínukassar eru mikil snilld!) Reyndu að forðast osta- og rauðvínsklisjuna og vertu frumleg(ur) í hugsun. Sem dæmi; bolli, kakópakki, góð bók og ilmkerti. Þú getur bætt rommi við til að flippa upp á kakóið. Nú eða te, hlýir sokkar, heimabakaðar smákökur og andlitsmaski. Ef þú vilt hafa gjöfina karlmannlegri eru sokkar, bók, súkkulaði og gott kaffi skotheld! Fjölskylduvæna karfan gæti innihaldið eitthvað gúmmelaði og SkipBo sem er ótrúlega skemmtilegt spil sem kemur í nettum stokk og fæst t.d. í Toys‘R’Us.

hostess-gift-basket

Ilmkerti, rauðvín og fallegt blóm eða bók er kærkomin gjöf.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *