Ég hafði fengið upp í kok af klósett- og jólapappírssölu til styrktar tómstundaferðum sona minna. Svuntan var því rifin upp og töfraðar fram dásamlegar möndlur sem seldust upp á mettíma. Ég prufa reglulega eitthvað nýtt. Þessar uppskriftir eru ekki síðri til tækifæris eða jólagjafa.
Kröftug kryddblanda!
Þetta er dásamlegt krydd sem hægt er að nota á allt, jafnt kjöt sem fisk. Mér finnst best að hafa eina matskeið af cayenne pipar en það er smekksatriði og svo má auðvitað má setja minna, eða jafnvel sleppa því.
1/3 bolli gróft salt
1/4 bolli ljós púðursykur
1/4 bolli papríka
2 msk mulinn svartur pipar
2 msk þurrkað oregano
2 msk þurkað timían
½ – 1 msk cayenne pipar (fyrir þá sem vilja smá hita í kuldanum)
Blandið öllu vel saman í skál með gaffli. Setjið í krukku sem lokast vel. Geymist í allt að 6 mánuði.
Ást á pinna!
Rice Krispies-pinnar eru dásamlegir og börnin mín kalla þá ást á pinna. Ég hef gert þetta fyrir barnaafmæli, fyrir bekkinn minn, sem gjafir og fyrir kökubasar. Það endar oftast á að börnin biðja um uppskriftina.
Hægt er að setja matarlit í sykurpúðablönduna eða kökuglimmer og skreyta súkkulaðitoppinn með kökuskrauti.
100 g smjör
450-500 g sykurpúðar
300 g rice krispies
1 tsk vanilluessens
300 g súkkulaði hjúpur, eða suðusúkkulaði (sem mér finnst best)
Bræðið smjörið og sykurpúða í potti við vægan hita og hrærið vel í, gott er að gera þetta í stórum potti. Þegar blandan er orðin kekkjalaus er potturinn tekinn af hellunni og Rice Krispies blandað vel saman við. Setjið blönduna í eldfast mót með smjörpappír undir og yfir. Ég set blönduna í tvö stór lasagnamót til að fá ekki of þykka pinna. Þjappið vel yfir og kælið. Skerið svo í bita af sömu stærð og frostpinnar. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði. Stingið íspinnaspýtu í miðjan kökubitann, dýfið í súkkulaðið og leggið á smjörpappír og kælið.
Kaffi- og kakóskeiðar
Kaffi- og kakóskeiðar skeiðar eru sérstaklega skemmtilegar á veturna til að hræra í kaffi- eða kakóbolla. Ef þú ert ekki mikið fyrir chili getur þú sleppt því eða sett örlítið af smátt söxuðum appelsínuberki.
10–15 skeiðar úr tré frá Tiger
200 g suðusúkkulaði
Muldar chiliflögur eftir smekk, ég nota um ½ -1 teskeið sléttfulla eftir því hve sterka ég vil hafa blönduna, en passið að setja ekki of mikið.
Hitið súkkulaðið yfir vatnsbaði þar til það er bráðið. Hitaðu súkkulaðið upp í um 32°C, eða þar til það er slétt og gljáandi. Gott er að nota stafrænan kjöthitamæli til að finna rétt hitastig. Rétt hitastig skiptir miklu máli svo súkkulaðið harðni af sjálfsdáðum og ekki þurfi að geyma skeiðarnar í kæli. Dýfið skeiðinni í og leggið á smjörpappír, hægt er að dýfa oftar en einu sinni ef þið viljið hafa súkkulaðið þykkra.
Ristaðar möndlur með chili og reyktu salti
Möndlur rjúka alltaf út í söfnunum og eru líka fallegar tækifærisgjafir.
250 g möndlur með hýði
1/2 dl vatn
½–1 tsk chiliduft
125 g sykur
Reykt sjávarsalt í lokin eftir smekk
Allt sett á pönnu og hrært jafnt og þétt. Þegar sykurinn fer að verða duftkenndur/ljós er hrært áfram, alls ekki hætta, og hrært áfram þar til glansinn kemur á möndlurnar. Settu þær á smjörpappír og dreifðu vel úr þeim. Því næst er salti dreift yfir og herlegheitin látin kólna.
Allt efni til gjafapökkunar fæst hjá Søstrene Grene:
Krukkur: 424 – 559 kr.
Merkispjöld 12 stk: 219 kr.
Pappaöskjur: 249 kr.
Silkipappír 4 arkir 50×66: 194 kr.
Frostpinnaspýtur 8 stk.: 116 kr.
Ljósmyndir: Heiða Hallsdóttir