Kínóaskál Sollu á Gló

Kínóaskál með kóríander og kasjúsósu
Sollu á Gló þarf ekki að kynna. Hún er ekki aðeins brosmildasta og jákvæðasta kona landsins heldur er hún einn helsti hráfæðis og heilsufrömuður Íslands. Og í raun er Ísland ekkert samasem merki. Solla er heimsþekkt fyrir ótrúlegan mat – mat sem ekki aðeins er bragðgóður heldur góður við líkama og sál. Solla og dóttir hennar Hildur gáfu út fyrir nokkrum mánuðum fallega matreiðslubók sem ég hef ekki lagt frá mér. Uppskriftirnar eru guðdómlegar og ljósmyndirnar og stíliseringin á heimsmælikvarða. Ég er búin að nauða í Söllu um að fá stílistann og ljósmyndaran til að halda námskeið. Við sjáum hvað setur! Þangað til deila þær mæðgur með okkur minningum og mat.  
 
„Á heimili ömmu Hildar og afa Eiríks var mjög oft borðað úr skál. Þá var verið að nýta afganga sem afi Eiríkur setti á pönnu og bætti út á ýmsu góðu úr garðinum. Skálin vekur góðar minningar hjá okkur mæðgum. Hér er uppskrift af skál þar sem úr verður heilsteypt máltíð sem er góð næring fyrir bæði líkama og sál.“

Kínóaskál Sollu og Hildar

  • 2 dl kínóa
  • 4 dl vatn
  • 2 dl bakaðar sætar kartöflur
  • 2 dl romaneskó
  • 2 dl grænkál
  • 1 dl soðnar svartar baunir
  • 1 dl granateplakjarnar
  • 1 avókadó
  • nokkrar möndlur

Dressing

  • 1 dl kasjúhnetur
  • 1 ⁄2 búnt ferskur kóríander
  • 3 ⁄4 dl appelsínusafi
  • 2 msk. sítrónusafi
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 daðla (ef vill)
  • 1 ⁄2 tsk. sjávarsaltflögur
  1. Skolið kínóa og setjið í pott ásamt 4 dl af vatni, látið suðuna koma upp og látið sjóða í um 18–20 mín. Slökkvið undir pottinum og látið standa í 5 mín.
  2. Afhýðið kartöflurnar og skerið í teninga.
  3. Skerið romaneskóið í passlega munnbita.
  4. Setjið bökunarpappír á ofnplötu, látið sætu kartöflurnar þar á, kryddið með salti og pipar og klípið smá kókosolíu og bætið við. Setjið 1–2 msk. af vatni út á og bakið við 170°C í 20–25 mín.
  5. Setjið romaneskóið í ofninn með sætu kartöflunum þegar um 15 mín. eru eftir af bökunartímanum.
  6. Á meðan kínóað er að sjóða og grænmetið að bakast undirbúið þið það sem er eftir af hráefninu. Fjarlægið grænkálið af stönglinum og skerið í bita, takið kjarnana úr granateplinu, skerið avókadóið í bita og þurrristið möndlurnar á pönnu.
  7. Það er þægilegt að kaupa tilbúnar soðnar svartar baunir en ef þið hafið tíma er hagkvæmast að sjóða þær sjálfur.
  8. Setjið kínóað í botninn á skálinni, raðið síðan hráefninu í skálina og fáið ykkur síðan vænan skammt af dressingunni út á.

Dressing

  1. Leggið kasjúhneturnar í bleyti í um 30 mín., setjið allt í blandarann og blandið þar til orðið er kekkjalaust. Í þessa uppskrift er hægt að nota basil í staðinn fyrir kóríander.

Romaneskó er einstaklega fallegt grænmeti úr brokkolí- og blómkálsfjöl- skyldunni sem sómir sér vel í kínóaskál. Ef romaneskó fæst ekki má nota ættingjana í þess stað!

 
12351227_10207969738426414_494117374_n

Myndir: www.addi.is


Viltu vita meira og langar sjúklega mikið í fleiri uppskriftir???
Sólveig og Hildur eru mæðgur með sameiginlegan áhuga á lífrænum lífsstíl, heilsusamlegu mataræði og umhverfisvernd. Sólveig er mörgum kunn sem Solla á Gló. Hún hefur verið frumkvöðull á sviði grænmetisfæðis hér á landi síðastliðna áratugi. Sólveig rekur vinsæla veitingastaði, hefur haldið námskeið í grænmetiseldamennsku og talar fyrir heilsusamlegu mataræði og lífrænum lífsstíl. Árin 2011 og 2012 hlaut Sólveig nafnbótina Besti hráfæðiskokkur heims og hefur í kjölfarið notið vinsælda sem fyrirlesari víða um heim. Hildur hefur lengst af starfað við tónlist og ferðast um heiminn með félögum sínum í hljómsveitinni amiinu. Hildur fékk áhuga á heilsusamlegum lífsstíl í móðurarf. Árið  2013 lauk hún BSc. gráðu í næringarfræði frá HÍ. Saman halda mæðgurnar úti vefsíðunni www.mæðgurnar.is þar sem þær gefa lesendum spennandi uppskriftir í takt við árstíðirnar. Solla og Hildur eru ósmissandi ef þú þráirað elda reglulega bragðgóðan og nýstárlegan hollan mat. Ég hreinlega elska þær!
 
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *