Dásamlega góðir quinoa-orkuboltar

_dsc5552

Ég hef verið að reyna taka út/minnka sykur í mínu mataræði, þó alls ekki alveg þar sem ég vil meina að allt er gott í hófi. Það sem mig vantaði helst var eitthvað til að seðja sykurpúkann í vinnunni og koma í veg fyrir að nammiskúffan væri heimsótt. Ég fór því að gera ýmsar tilraunir. Sumar fóru beint í ruslið en svo tókst mér að gera þessa dásamlegu orkubolta. Mér er sagt að quinoa sé ofurfæða, stútfullt af próteini, trefjum, alls konar vítamínum og steinefnum og svo er það glútenfrítt. Það sem mér finnst svo dásamlegt við þessi dásamlegu korn er hve auðvelt er að gera dýrindis rétti úr þeim. Einnig finnst mér gott að sjóða slatta á sunnudögum og geyma í lofttæmdu boxi í ísskápnum, þau geymast vel og þá tekur enga stund að henda í gott salat á morgnana og vera þannig stútfull af orku allan vinnudaginn. Þessir orkuboltar eru mjög góðir og best af öllu er að hráefnin fara beint í matvinnsluvélina og því fylgir þessu lítið uppvask.

Dásamlega góðir quinoa-orkuboltar
Hollir og góðir orkuboltar sem gott er að narta í.
Skrifa umsögn
Prenta
Innihaldsefni
  1. 1/3 bolli quinoa, ósoðið
  2. 2/3 bolli kalt vatn
  3. 1/2 bolli ferskar döðlur
  4. 1/2 bolli þurrkaðar gráfíkjur, ég notaði frá Rapunzel
  5. 1/2 bolli möndlur með hýði
  6. 1/3 bolli hnetusmjör með fjórum tegundum af hnetum frá Rapunzel (Mischmus 4 nuts)
  7. 1/3 bolli dökkir súkkulaði dropar
  8. Salt eftir smekk
  9. Muldar pistasíur, kókos eða það sem ykkur þykir gott til að velta boltunum upp úr
Leiðbeiningar
  1. Skolið quinoað og setjið svo í pott ásamt vatninu og látið suðuna koma upp, lækkið undir og setjið lok á pottinn og látið malla í 10-14 mínútur við vægan hita eða þar til vatnið er nánast allt gufað upp. Setjið þá til hliðar.
  2. Setjið möndlur í matvinnsluvél og maukið vel, bætið döðlum, gráfíkjum, salti, hnetusmjöri, soðnu quinoa og súkkulaðidropum saman við og látið maukast vel saman.
  3. Hnoðið bolta úr blöndunni, ég næ að gera um 12-14 bolta. Veltið boltunum upp úr söxuðum pistasíum (það finnst mér langbest), kókos eða því sem ykkur dettur í hug. Setjið boltana á smjörpappír og kælið.
  4. Geymist í lofttæmdu boxi í ísskáp.
Athugasemdir
  1. Þeir sem ekki eru hrifnir af gráfíkjum geta haft meira af döðlum.
  2. Auðvitað má nota hvaða hnetusmjör sem er en mér þykir þetta bara svo einstaklega bragðgott.
EatRVK https://eatrvk.is/
 Þessi færsla er styrkt af Innnes hf. sem flytur inn Rapunzel.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *