Fullkomnar ristaðar kjúklingabaunir

Kjúklingabaunir er snilldar hráefni sem gaman er að elda úr. Það er hægt að gera svo margt t.d. dásamlegan hummus, pottrétti og einnig er geggjað að rista þær í ofni og borða sem snakk, setja á salöt, mylja og setja yfir taco eða það sem ykkur dettur í hug. Ég hef gert margar útgáfur og stundum ekki verið nógu ánægð með útkomuna. Þær hafa brunnið, verið seigar og jafnvel of stökkar.  Ég er núna búinn að finna hina fullkomnu aðferð til að gera þessa fallegu gylltu bolta. Þetta er súper einfalt, tekur stuttann tíma, hollt og bragðgott. Endilega leikið ykkur með hvaða krydd þið viljið nota en mín reynsla er að betra er að krydda eftir ristun, því þær brenna frekar ef kryddað er áður. Ef þið eigið geggjaða kryddblöndu þá endilega deilið því með okkur, maður má alltaf á sig kryddi bæta 😉 Þegar ég geri þessar gersemar þá tvöfalda ég alltaf uppskriftina þar sem hún hverfur hratt enda borða allir á heimilinu þetta góðgæti.

Fullkomnar ristaðar kjúklingabaunir
Einfallt, bragðgott og dásamlega hollt
Skrifa umsögn
Prenta
Innihaldsefni
  1. 1 Dós kjúklingabaunir, ég nota alltaf frá Mr Organic
  2. 1 msk ólífuolía
  3. 1/2 tsk cumin
  4. 1/2 tsk chili duft
  5. 1/4 tsk cayenne pipar, minna ef þær eiga ekki að vera sterkar
  6. salt eftir smekk
Leiðbeiningar
  1. Skolið baunirnar vel og þerrið vel, best er ef þær eru alveg þurrar
  2. Setjið baunirnar í skál og blandið ólífuolíu saman við og veltið baununum vel uppúr henni
  3. Setjið ofninn á 220 gráður og setjið baunirnar á smjörpappír og strax inn í ofninn á meðan hann er að hitna
  4. Bakið í 25-30 mínútur og slökkvið svo á ofninum og leyfið ristuðu kjúklingabaununum að vera í ofninum á meðan hann kólnar
  5. Setjið kaldar baunirnar í skál, kryddið og njótið.
EatRVK https://eatrvk.is/

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *