Ís í morgunmat!!!!

Við höfum verið svo heppin með veður undanfarið og þá langar manni alltaf í ís, ég var eitthvað að skoða myndir á Instagram hjá vinum og rakst þá á þessa uppskrift hjá vinkonu minni, henni Elínu Arndísi Gunnarsdóttur sem er alltaf að bralla eitthvað skemmtilegt í eldhúsinu sínu í Noregi. Titillinn á myndunum var „Íspinnar í morgunmat“ og auðvitað fóru bragðlaukarnir mínir á fullt enda íssjúk þessa sólardaga. Það þarf þó ekki bara að njóta þessara gullmola á morgnanna heldur eru þeir upplagðir hvenær sem er. Ég fékk hana til að deila með okkur uppskriftinni og síðar í vikunni kemur svo önnur útgáfa frá henni, og vonandi jafnvel eitthvað meira. Þessir pinnar eru einnig vegan, mjólkurlausir og sykurlausir svo allir ættu að gleðjast. 

 

Mynd Elín Arndís Gunnarsdóttir

Íspinnar í morgunmat!!!!

2 stórir eða 3 litlir bananar skornir í litla bita og frystir

1 dl kókosmjólk (þykki hlutinn) – gott að kæla dósina og opna svo og taka það efsta

1/2 dl möndlumjólk

1 msk agavesíróp eða hlynsíróp

1 tsk vanilluduft (bourbonvanilla) eða dropar

Klípa af góðu salti

Hrært í matvinnsluvél þangað til msilkimjúkt. Passar í allt að 8 ísform.

Bræða 50g af 70% súkkulaði og setja yfir þegar ísinn er orðinn frosinn. Það má líka borða bara beint upp úr matvinnsluvélinni og setja í kexform – þá er ísinn eins og úr vél!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *